Liverpool reynir við Pedro næsta sumar - PSG til í að opna veskið fyrir Isak - Nico Williams eftirsóttur
   þri 14. júní 2022 12:41
Elvar Geir Magnússon
Áfall fyrir Víkinga - Ingvar frá næstu vikurnar og missir af umspilinu
Ingvar Jónsson meiddist í landsliðsverkefni.
Ingvar Jónsson meiddist í landsliðsverkefni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er mikill skellur og ótrúlega svekkjandi," segir markvörðurinn Ingvar Jónsson í Víkingi sem verður fjarri góðu gamni næstu vikurnar eftir að hafa meiðst í landsliðsglugganum.

Ingvar var í upphitun fyrir landsleikinn í San Marínó í síðustu viku þegar hann varð fyrir meiðslunum, í lokaskotinu í upphitun. Hann fékk skot úr sitthvorri áttinni og var að verjast því að fá boltann í andlitið þegar hann meiddist og í ljós hefur komið að sprunga myndaðist í handarbakinu.

„Maður hefði frekar átt að taka því að fá boltann í smettið og rotast en svona er þetta," segir Ingvar sem horfir þó líka á jákvæðu hliðarnar og nefnir að þetta hefði getað ferið verr. Myndataka hefur leitt í ljós að hann sleppur við að fara í aðgerð.

Ingvar er að margra mati besti markvörður Bestu deildarinnar en mótið fer aftur af stað á miðvikudaginn þegar Víkingur heimsækir ÍBV. Meðal leikja sem Ingvar missir af eru umspilsleikirnir fyrir forkeppni Meistaradeildarinnar.

„Þetta eru leikir sem maður hefur beðið eftir lengi svo þetta er ótrúlega svekkjandi," segir Ingvar en Víkingur leikur við Levadia Tallinn frá Eistlandi í næstu viku. Sigurliðið leikur svo úrslitaleik um að mæta Malmö í forkeppni Meistaradeildarinnar en umspilið fer allt fram á Víkingsvelli.

Ekki er ljóst nákvæmlega hversu lengi Ingvar verður frá. Hann þarf að vera í gifsi í tvær vikur og svo mun hann ræða við lækni um framhaldið.

Meiðsli Ingvars er mikið áfall fyrir Víkinga en þeir geta huggað sig við að hafa besta varamarkvörð deildarinnar í sínum röðum, Þórð Ingason. Ingvar segir að sitt hlutverk verði núna að styðja við bakið á honum næstu vikurnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner