Liverpool hafnaði tilboði í Nunez og hefur áhuga á Tzimas - Chelsea hefur sett verðmiða á Nkunku - Rashford vill fara til Barcelona
   mið 15. janúar 2025 22:10
Brynjar Ingi Erluson
England: Arsenal vann nágrannaslaginn og er nú fjórum stigum frá toppnum
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Arsenal 2 - 1 Tottenham
0-1 Son Heung-Min ('25 )
1-1 Dominic Solanke ('40 , sjálfsmark)
2-1 Leandro Trossard ('44 )

Arsenal tókst að saxa á forystu toppliðs Liverpool með því að vinna nágranna sína í Tottenham Hotspur, 2-1, á Emirates-leikvanginum í 21. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Eftir að Liverpool missteig sig gegn Nottingham Forest í gær sá Arsenal kjörið tækifæri til þess að komast nær toppliðinu.

Brasilíski varnarmaðurinn Gabriel Magalhaes kom Arsenal til bjargar eftir rúmar tuttugu mínútur er Djed Spence kom með laglega sendingu í áttina að Dominic Solanke. Gabriel náði að pota í boltann og koma í veg fyrir mark, en Arsenal-menn komu engum vörnum fimm mínútum síðar.

Tottenham fékk hornspyrnu og var boltinn hreinsaður út við vítateigslínuna á Heung-Min Son sem setti boltann viðstöðulaust neðst í hægra hornið.

Forysta gestanna varði aðeins í fimmtán mínútu og það eftir umdeilt mark.

Arsenal, sem hefur treyst mikið á föst leikatriði á þessu tímabili, fékk hornspyrnu þrátt fyrir að boltinn hafi farið af Leandro Trossard og aftur fyrir. Úr hornspyrnunni kom síðan markið en boltanum var spyrnt á fjær, yfir allan pakkann og á Gabriel sem stangaði boltanum í Solanke og í netið.

Fjórum mínútum síðar kom Leandro Trossard heimamönnum yfir með vinstri fótar skoti úr teignum. Skotið var ágætlega fast en samt sem áður nokkuð beint á Antonin Kinsky sem varði boltann klaufalega í netið.

Arsenal varðist vel í síðari hálfleiknum og leit hættulega út en Tottenham gat bara ekki fundið leið til baka.

Á síðustu sekúndum leiksins komst Pedro Porro nálægt því að sækja stig fyrir Tottenham en skot hans hafnaði í stönginni. Fleiri urðu mörkin ekki á Emirates og 2-1 sigur Arsenal staðreynd.

Arsenal er með 43 stig í öðru sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir Liverpool. Bítlaborgar-liðið á þó einn leik inni, gegn Everton, en sá leikur verður ekki spilaður fyrr en í byrjun febrúar.

Tottenham er hins vegar í 13. sæti með 24 stig og er nær fallsvæði en Evrópusætunum.
Athugasemdir
banner
banner
banner