„Þetta hefði getað farið hvorum megin sem var en við nýttum bara ekki færin, þær fengu svo eitt úr föstu leikatriði," sagði Hulda Hrund Arnarsdóttir fyrirliði Fylkis eftir 1 - 0 tap gegn Val á Hlíðarenda í dag.
Lestu um leikinn: Valur 1 - 0 Fylkir
„Heilt yfir var þetta mjög flott, ég var ánægð með stelpurnar og við lögðum okkur allar í leikinn," sagði Hulda. Fylkir tapaði fyrsta leik gegn Breiðabliki 9 - 0 og svo var næsta leik gegn Tindastóli frestað. Var erfitt að bíða svona lengi eftir að fá að svara fyrir sig?
„Já, en sá leikur var bara búinn svo við stefndum þá bara að þessum sem var næsti leikur. Við förum inn í hvern leik og ætlum að gera okkar besta og við fórum ekkert inn í þann leik til að tapa 9-0," sagði hún.
Val er spáð efsta sætinu í sumar, var erfitt að mæta þeim í dag? „Þær eru fínar stelpur og bara alveg eins," sagði hún.
Næsti leikur Fylkis er gegn nýliðum Keflavíkur en það verður fyrsti heimaleikur Fylkis í sumar eftir að leiknum gegn Tindastóli var frestað.
„Það verður fínt, ef við hefðum fengið að spila leikinn við Tindastól þá hefðum við byrjað mótið á tveimur toppliðum og tveimur nýliðum. Það er alltaf erfitt að mæta Keflavíkurliðinu. Mig langar að fara í Lautina því ég er komin með nóg af útileikjum."
Athugasemdir