Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 15. júní 2022 14:24
Elvar Geir Magnússon
Enginn Íslendingur að spila í ensku úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í 25 ár
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson.
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það stefnir í að enginn Íslendingur spili í ensku úrvalsdeildinni á næsta tímabili en það yrði þá í fyrsta sinn í 25 ár.

Rúnar Alex Rúnarsson markvörður er á mála hjá Arsenal en eins og staðan er núna verða að teljast litlar sem engar líkur á því að hann spili með liðinu í ensku deildinni næsta tímabil.

Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í Burnley féllu úr ensku úrvalsdeildinni á liðnu tímabili og Gylfi Þór Sigurðsson hefur yfirgefið Everton.

Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson íþróttafréttamaður á RÚV veltir þessum málum fyrir sér á Twitter og bendir á að Ísland eigi aðeins tvo leikmenn hjá liðum í bestu fimm deildum Evrópu. Það eru Þórir Jóhann Helgason (Lecce á Ítalíu) og Guðlaugur Victor Pálsson (Schalke í Þýskalandi).

Leikmenn á borð við Jón Dag Þorsteinsson, Hörð Björgvin Magnússon og Alfreð Finnbogason eru félagslausir og veltir Þorkell fyrir sér hvort þeir geti mögulega bæst í hópinn.

Verðum að koma leikmönnunum okkar upp í þessar deildir
Arnar Þór Viðarsson talaði um það í mars að hann telji mikilvægt að koma leikmönnum í þessar deildir en 80 prósent af mörkum íslenska landsliðsins síðustu ár hafa komið frá leikmönnum úr þessum deildum.

„Það komu 80 prósent af mörkunum okkar frá leikmönnum sem voru að spila í topp fimm deildunum. Þetta þýðir að það voru bara 20 prósent af mörkunum sem komu frá leikmönnum sem voru ekki að spila í topp fimm deildunum," sagði Arnar.

„Svona tölfræði segir okkur það að við verðum að koma leikmönnunum okkar í topp fimm deildirnar. Við eigum nokkra en því fleiri sem við eigum því meiri möguleika eigum við á að ná árangri."

„Við vitum að við eigum marga unga og efnilega leikmenn en það tekur tvö eða þrjú ár fyrir þessa leikmenn að finna sig hjá sínum félögum og ná að komast upp í þessar topp fimm deildir. Þú ert ekki að spila mikið í topp fimm deildum ef þú ert yngri en 23 ára nema þú sért súpertalent. Ég ætla ekki að segja áhyggjuefni en þessi þróun sem þarf að eiga sér stað. Þess vegna er mikilvægt að kíkja í þessa tölfræði," sagði Arnar Þór.

Talað er um England, Spán, Þýskaland, Ítalíu og Frakkland sem fimm bestu deildir Evrópu.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner