Landsliðshópur Íslands fyrir fyrstu leikina í undankeppni EM 2024 var opinberaður í gær.
Albert Guðmundsson er ekki í hópnum, líkt og í síðustu verkefnum. Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, setti Albert til hliðar í september út af slæmu hugarfari en Albert var ekki að byrja leikina og var lítið að koma við sögu. Arnar hringdi í Albert áður en þessi hópur var tilkynntur og ræddu þeir saman.
„Það eru vonbrigði að hann sé ekki tilbúinn til að koma inn í landsliðið á forsendum liðsins," sagði Arnar í gær, en hann var spurður frekar út í þessa ákvörðun í samtali við Fótbolta.net í dag.
Þá sagði hann: „Ég hringdi í Albert og bauð honum að koma til baka. Það eru margir leikir í þessari undankeppni sem öskra á hæfileika Alberts. Svo eru aðrir leikir í þessari undankeppni sem kalla á aðra hæfileika."
„Ég get sem þjálfari ekki valið leikmenn sem eru ekki tilbúnir að koma inn nema þeir muni byrja leikina. Það er ein af forsendunum," sagði Arnar.
„Síðan eru margar aðrar forsendur í liðsíþróttum. Þetta snýst alltaf um að þú þarft að setja liðið fram yfir sjálfan þig."
Var það krafa frá Alberti að byrja alla leiki í landsliðinu?
„Þegar ég tilkynnti honum að planið væri ekki að hann myndi byrja á móti Bosníu þá var hann efins um að vilja koma. Við áttum mjög gott spjall og vorum hreinskilnir við hvorn annan. Það er ekkert illt á milli okkar... ég er ekki búinn að loka neinum hurðum. Ef Albert er tilbúinn að koma inn og vera með okkur í þessu, þá veit ég að leikmennirnir og liðið myndu fagna því."
„Við einbeitum okkur núna að þessum glugga og ná í sem best úrslit," sagði Arnar.
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir