Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
banner
   þri 16. júní 2020 18:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeildina: 1. sæti
Lengjudeildin
ÍBV er spáð beinustu leið aftur upp.
ÍBV er spáð beinustu leið aftur upp.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Helgi Sigurðsson þjálfar ÍBV.
Helgi Sigurðsson þjálfar ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gary Martin er lykilmaður í liði ÍBV.
Gary Martin er lykilmaður í liði ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarni Ólafur skrifaði undir hjá ÍBV.
Bjarni Ólafur skrifaði undir hjá ÍBV.
Mynd: ÍBV
Markvörðurinn Halldór Páll Geirsson.
Markvörðurinn Halldór Páll Geirsson.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Frá Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum.
Frá Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum.
Mynd: Sigga Inga
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1. ÍBV, 236 stig
2. Grindavík, 210 stig
3. Keflavík, 202 stig
4. Þór, 173 stig
5. Leiknir R., 165 stig
6. Fram, 139 stig
7. Víkingur Ó., 130 stig
8. Vestri, 92 stig
9. Afturelding, 86 stig
10. Þróttur R., 72 stig
11. Leiknir F., 45 stig
12. Magni 34 stig

1. ÍBV
Lokastaða í fyrra: Sumarið var langt frá því að vera gott hjá Vestmannaeyingum í fyrra og enduðu þeir langneðstir. ÍBV náði aldrei upp neinum takti og spilar í 1. deild í ár, í fyrsta sinn síðan síðan 2008. Þeim er hins vegar spáð beinustu leið aftur upp og kemur það engum á óvart.

Þjálfarinn: Helgi Sigurðsson tók við ÍBV eftir síðustu leiktíð. Helgi er fyrrum landsliðsframherji sem síðustu ár þjálfað Fylki. Hann kom Fylkisliðinu upp í efstu deild og festi liðið þar í sessi. Áður en Helgi tók Fylki var hann aðstoðarþjálfari Víkings R. auk þess sem hann þjálfaði yngri flokka félagsins.

Álit sérfræðings
Úlfur Blandon og Rafn Markús Vilbergsson eru sérfræðingar Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina og 2. deild karla. Úlfur gefur sitt álit á Vestmannaeyingum.

„Heimavöllurinn, stemmningin á leikjum, stuðningsmenn og allir þeir fjölmörgu sjálfboðaliðar sem koma að starfi ÍBV er virkilega dýrmætt. Allar þessar meginstoðir sem knattspyrnufélag þarf á að halda er til staðar í Vestmannaeyjum og telst sem mikill styrkleiki."

„Knattspyrnulega séð eru þeir búnir að styrkja sig ansi skynsamlega bæði eru þeir búnir að fækka hjá sér erlendum leikmönnum og segja má að leiðin sem farin er núna er að hafa færri en betri aðkomumenn. Þeir útlendingar sem eftir eru í ÍBV eru með þeim betri í þessari deild. Þeir ætla sér að treysta á og byggja liðið upp á heimamönnum sem fá stærra og veigameira hlutverk en áður og fá til sín þjálfara Helga Sigurðsson sem hefur kunnáttu og þekkingu til að koma liðum upp úr 1.deild. Bjarni Ólafur Eiríksson fyrrverandi landsliðsmaður er frábær viðbót við hópinn kemur með gríðarlega reynslu og er í senn mikill leiðtogi, innan sem utan vallar. Hann fær það hlutverk að leiða hópinn að settu marki bæði sem fyrirliði og ein helsta stoðin í varnarleiknum. Þeir eru ekki á flæðiskeri staddir varðandi markvörð verandi með Halldór Pál sem var góður í Pepsi Max deild karla á síðasta ári og sennilega besti markvörður Lengjudeildarinnar í ár stendur fyrir aftan reynslu mikla vörn eyjamanna. Að öllum öðrum ólöstuðum í Lengjudeild karla þá er framlína Eyjamanna ógnvænleg með Gary Martin og Jonathan Glenn, framherjapar sem hlýtur að teljast með þeim sterkari sem spilað hefur í 1. deild karla í langan tíma. Það er varla veikan blett að finna í liði Eyjamanna sama hvert er litið. Miðað við hvað þeir hafa sýnt að undanförnu eru þeir í góðu standi, búnir að æfa vel og tilbúnir að láta til sín taka. Þeir eru með stóran og góðan hóp, feykilega sterkt bakland og þjálfarateymi í hæsta gæðaflokki. ÍBV ætlar sér ekki að spila í 1. deild að ári, það er ekkert álitamál."

„Það er í raun erfitt að finna veikleika í liði ÍBV á þessu ári. Helst er hægt að nefna pressuna á að vinna og spurning hvernig hún fer með þá, það ætlast allir til að þeir vinni þessa deild með miklum yfirburðum, spili fótbolta í öðrum gæðaflokki en önnur lið í deildinni og vinni mótið með fullu húsi stiga. Eins og knattspyrnuheimurinn veit þá er ekki hægt að vinna mót fyrirfram það þarf að spila leikina, halda einbeitingu í 90 mínútur + í hverjum einasta leik og vinna saman sem lið öllum stundum."

Lykilmenn: Bjarni Ólafur Eiríksson, Gary Martin og Halldór Páll Geirsson.

Gaman að fylgjast með: Eyþór Orri Ómarsson strákur sem hefur verið að banka á dyrnar í liði ÍBV, fæddur 2003 en hefur spilað 16 leiki í deild og bikar nú þegar fyrir lið ÍBV. Spurning hvort hann fái tækifæri í sumar til að láta ljós sitt skína. Tómas Bent Magnússon strákur fæddur 2002 var valinn í æfingahóp 19 ára landsliðs Íslands í janúar gæti sömuleiðis fengið hlutverk í liði ÍBV á þessu tímabili. Að fylgjast með Gary Martin í Lengjudeildinni verður ævintýralegt. Hann var markakóngur Pepsi Max deildarinnar í fyrra með 13 mörk. Ef allt væri eðlilegt ætti hann að skora vel yfir 20 mörk á þessu tímabili og óhætt að segja að spennan í kringum Gary Martin er illviðráðanleg fyrir flesta fótboltaunnendur. Hvað skorar Gary Martin mörg mörk í Lengjudeildinni í ár? Það er stóra spurningin.

Komnir:
Bjarni Ólafur Eiríksson frá Val
Frans Sigurðsson frá KFG (var á láni)
Guðjón Ernir Hrafnkelsson frá Hetti
Jose Sito frá Bandaríkjunum
Jón Ingason frá Grindavík

Farnir:
Alfreð Már Hjaltalín í Leikni R.
Benjamin Prah til Þýskalands
Diogo Coelho til Armeníu
Evariste Engolok
Guðmundur Magnússon í Grindavík
Jonathan Franks til Englands
Matt Garner í Framherja
Oran Jackson til Englands
Priestley David Griffiths til Englands
Rafael Veloso til Færeyja
Sigurður Grétar Benónýsson í Vestra
Sindri Björnsson í Val (var á láni)

Fyrstu þrír leikir ÍBV:
20. júní, ÍBV - Magni (Hásteinsvöllur)
28. júní, Afturelding - ÍBV (Fagverksvöllurinn Varmá)
3. júlí, ÍBV - Víkingur Ó. (Hásteinsvöllur)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner