banner
   mán 15. júní 2020 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeildina: 2. sæti
Lengjudeildin
Grindavík fer beint aftur upp í Pepsi Max-deildina samkvæmt spánni.
Grindavík fer beint aftur upp í Pepsi Max-deildina samkvæmt spánni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigurbjörn Hreiðarsson tók við þjálfun Grindavíkur.
Sigurbjörn Hreiðarsson tók við þjálfun Grindavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Gunnar Þorsteinsson er fyrirliði Grindavíkur.
Gunnar Þorsteinsson er fyrirliði Grindavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðmundur er öflugur markaskorari.
Guðmundur er öflugur markaskorari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá Grindavíkurvelli.
Frá Grindavíkurvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1. ?
2. Grindavík, 210 stig
3. Keflavík, 202 stig
4. Þór, 173 stig
5. Leiknir R., 165 stig
6. Fram, 139 stig
7. Víkingur Ó., 130 stig
8. Vestri, 92 stig
9. Afturelding, 86 stig
10. Þróttur R., 72 stig
11. Leiknir F., 45 stig
12. Magni 34 stig

2. Grindavík
Lokastaða í fyrra: Grindavík gerði 11 jafntefli, en náði aðeins að vinna þrjá leiki í Pepsi Max-deildinni og var niðurstaðan 11. sæti, fallsæti. Grindavík féll þrátt fyrir að hafa verið næst besta varnarlið deildarinnar, en aðeins Íslandsmeistarar KR fengu á sig færri mörk; Grindavík fékk á sig 28 mörk en KR 23.

Þjálfarinn: Sigurbjörn Hreiðarsson tók við Grindavík af Túfa eftir síðustu leiktíð. Sigurbjörn hefur síðustu ár verið aðstoðarþjálfari Vals, en þetta er í annað sinn sem hann verður aðalþjálfari í meistaraflokki karla. Hann var aðalþjálfari Hauka 2014, en þá endaði liðið í sjöunda sæti það sem núna er Lengjudeildin. Sigurbjörn hefur verk að vinna eftir 5-1 tap gegn ÍBV í Mjólkurbikarnum um liðna helgi.

Álit sérfræðings
Rafn Markús Vilbergsson og Úlfur Blandon eru sérfræðingar Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina og 2. deild karla. Rafn gefur sitt álit á Grindvíkingum.

„Eftir ágæta byrjun í Pepsi Max-deildinni í fyrra, þá gekk lítið þegar leið á tímabilið og liðið vann ekki leik í ágúst og september og fall staðreynd. Þegar Grindavík féll síðast úr deildinni árið 2012 tók það liðið fjögur tímabil að komast aftur upp í efstu deild. Grindavík á sterka sögu en þeir hafa t.d. ekki endað neðar en í fimmta sæti í 1. deild í um 30 ár. Grindvíkingar eru ákveðnir í að láta fallið úr úrvalsdeildinni frá því í fyrra ekkert á sig fá og stefna rakleiðis upp aftur. Þrátt fyrir miklar breytingar á leikmannahópnum frá því í fyrra, og þá sérstaklega leikmenn sem horfið hafa á braut, þá stefna Grindavíkingar beint upp."

„Grindavík náði að halda lykilleikmönnum og leikmönnum sem mynda hryggjarsúluna í liðinu. Það hjálpar nýjum leikmönnum að aðlaðast nýju liði. Enginn nýr erlendur leikmaður er kominn til liðsins en þeir hafa fengið sterka leikmenn í Guðmundi Magnússyni og Sindra Björnssyni sem eru mjög góð viðbót í liðið. Byrjunarliðið er gott en leikmannahópurinn er ekki jafn breiður og hjá liðunum sem spáð er efstu sætunum og lítið má út af bregða í meiðslum og leikbönnum. Það verður spennandi að sjá hvernig Bjössi og Óli ná að púsla liðinu saman. Pressan er mikil á Grindavík og verður fróðlegt að sjá hvernig þeir koma inn í tímabilið, sérstaklega eftir vont tap gegn ÍBV í bikarnum."

„Grindavík mun líklega spila 4-3-3 eða 4-2-3-1 þar sem má búast við beinskeittu liði þar sem leikgleði og stemning mun einkenna liðið, sérstaklega ef vel mun ganga. Sindri Björnsson kemur með mikla reynslu og mikil gæði inn í liðið og svo verður gaman að fylgjst með Guðmundi Magnússyni sem hefur skorað 22 mörk í 30 leikjum í 1. deildinni á síðustu tveimur tímabilum. Það er stór spurning hvort leikmannastyrkingin sé nægilega mikil fyrir Grindavíkurliðið sem var oft í vandræðum í fyrra með hversu þunnur leikmannahópurinn var. Grindavík er með tvo góða markmenn í Vladan Dogatovic og Maciej Majewski. Varnarlínan með Marinó, Sigurjón, Josip Zeba og Elias ætti að vera nokkuð sterk, þótt línan hafi virkað mjög óörugg gegn ÍBV. Þessir leikmenn voru mikilvægir hlekkir í vörn Grindavíkur sem fékk á sig næst fæstu mörkin í Pepsi Max deildinni í fyrra á eftir KR en féllu samt. Liðið er vel mannað á miðjunni, þá sérstaklega varnarlega með leikmenn eins og fyrirliðann Gunnar Þorsteinsson, sem talar og stjórnar liðinu, Alexander Veigar Þórarinsson, Sindra Björnsson og Aron Jóhannsson. Sóknarlega á miðjunni vantar öflugan, skapandi leikmann, það er leikstaða sem gæti verið aðkallandi fyrir Grindavík að bæta við inn í leikmannahópinn. Bakverðirnir hjá Grindavík hafa verið mjög góðir í að koma upp og styðja við sóknarleikinn. En til þess að markmiðin náist í sumar þarf Gummi Magg að vera á skotskónum og þá er lykilatriði að miðjumenn séu skapandi, bæði að miðri miðju og á köntunum."

Lykilmenn: Gunnar Þorsteinsson, Josip Zeba og Guðmundur Magnússon.

Gaman að fylgjast með: Marinó Axel Helgason er mjög traustur bakvörður og mikilvægur hlekkur í Grindavíkurliðinu. Það verður gaman að fylgjast með honum halda áfram að vaxa og þroskast sem leikmaður. Kröftugur, vinnusamur, með góða tækni og sterkur varnarlega og sóknarlega.

Komnir:
Hilmar Andrew McShane frá Njarðvík (var á láni)
Guðmundur Magnússon frá ÍBV
Oddur Ingi Bjarnason frá KR (Á láni)
Sindri Björnsson frá Val
Ævar Andri Á Öfjörð frá Víði (Var á láni)

Farnir:
Diego Diz Martinez til Georgíu
Jón Ingason í ÍBV
Marc Mcausland í Njarðvík
Oscar Manuel Conde Cruz til Spánar
Patrick N'Koyi til Belgíu
Rodrigo Gomes Mateo í KA
Stefan Alexander Ljubicic í Riga FC
Vladimir Tufegdzic í Vestra

Fyrstu þrír leikir Grindavíkur:
19. júní, Þór - Grindavík (Þórsvöllur)
28. júní, Grindavík - Þróttur R. (Grindavíkurvöllur)
4. júlí, Vestri - Grindavík (Olísvöllurinn)
Athugasemdir
banner
banner
banner