Zirkzee, Yoro og Branthwaite orðaðir við Man Utd - Arsenal mun framkvæma læknisfræðilegt mat á Neto
   sun 16. júní 2024 22:32
Ívan Guðjón Baldursson
Southgate: Gott fyrir okkur að þjást aðeins
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Gareth Southgate var kátur eftir 1-0 sigur Englands gegn Serbíu í fyrstu umferð Evrópumótsins fyrr í kvöld.

Jude Bellingham skoraði eina mark leiksins snemma í fyrri hálfleik og bætti hvorugt lið marki við í bragðdaufum leik. Undir lokin blésu Serbar til sóknar og settu pressu á stjörnum prýtt lið Englands en tókst þó ekki að skapa mikla hættu.

„Við mættum sterkum andstæðingum í kvöld en náðum í stigin þrjú. Við þurftum aðeins að þjást undir lokin en ég held að það sé mjög gott fyrir okkur. Það var gott fyrir strákana að þurfa að verjast svona lágt niðri, þetta er mikilvægt vopn sem við getum beitt," sagði Southgate að leikslokum.

„Ég var mjög sáttur með flest sem við gerðum í leiknum. Við héldum boltanum að vísu ekki nógu vel í seinni hálfleik en skópum að lokum mjög dýrmætan sigur í riðlakeppninni.

„Ég bjóst í raun við að leikurinn myndi spilast svona og ég er mjög ánægður með varnarvinnuna hjá okkur. Við mættum sterkum andstæðingum og áttum að skora að minnsta kosti eitt mark í viðbót miðað við færin sem við sköpuðum."


Southgate var svo spurður út í Bellingham sem var besti leikmaður vallarins og skoraði eina mark leiksins.

„Jude er að skrifa sína eigin sögu. Hann tímasetur hlaupin sín ótrúlega vel og þetta var mjög gott mark sem við skoruðum, strákarnir spiluðu frábærlega í aðdragandanum. Ég veit að við munum skora fleiri mörk þegar tekur að líða á mótið, við erum með sóknarlínu í heimsklassa. Það var ekki auðvelt að skapa færi gegn Serbunum, þeir spiluðu með mjög þétta fimm manna varnarlínu.

„Við höfum verið að vinna mikið í því að læra að verjast og þjást án boltans og ég er gríðarlega ánægður með þær framfarir sem hafa átt sér stað í þeim efnum."


Southgate hrósaði að lokum Trent Alexander-Arnold og Marc Guéhi sem voru í byrjunarliðinu í kvöld og fullvissaði Englendinga um að Kieran Trippier meiddist ekki í sigrinum, hann var einungis að glíma við krampa.

Danmörk og Slóvenía eru einnig í C-riðli ásamt Englandi og Serbíu.
Athugasemdir
banner
banner
banner