Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   þri 16. júlí 2024 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Katowice
Sagði við Glódísi fyrir tíu árum að hún yrði best
Icelandair
Glódís umkringd aðdáendum sínum.
Glódís umkringd aðdáendum sínum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís faðmar hér Öddu Baldursdóttur.
Glódís faðmar hér Öddu Baldursdóttur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr Alexandersson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, ræddi aðeins við RÚV um magnaðan 3-0 sigurinn gegn Þýskalandi síðasta föstudagskvöld. Hann segir að úrslitin fari í sögubækurnar.

Ísland tryggði sig inn á fimmta Evrópumótið í röð með sigrinum. „Fyrir okkur, litla knattspyrnuþjóð, er það stórkostlegur árangur," sagði Freyr sem stýrir í dag Kortrijk í Belgíu.

Hann talaði líka um landsliðsfyrirliðann Glódísi Perlu Viggósdóttur, sem fékk tíu í einkunn fyrir frammistöðu sína gegn Þýskalandi. Glódís er magnaður leiðtogi fyrir íslenska liðið.

„Ég sagði það við Glódísi fyrir tíu árum að hún yrði besti miðvörður í heimi," segir Freyr.

„Ég ætla nú ekki að fullyrða að hún sé það í dag af því að ég þekki þær ekki nægilega vel allar hinar en hún hlýtur að vera með þeim allra allra bestu því að frammistaða hennar leik eftir leik er í hæsta gæðaflokki."

Glódís er fyrirliði Bayern München, sem er algjört stórveldi í Þýskalandi, og það er erfitt að sjá annað en að hún sé í algjörum sérflokki í heiminum í sinni stöðu.

Ísland mætir Póllandi klukkan 17:00 í dag í síðasta leik sínum í undankeppni EM 2025 en Freyr segir að hver einasti leikur fram að mótinu næsta sumar telji.

„Það er vani að vinna eins og það getur orðið að vana að tapa. Þannig að ég vona bara að þær mæti til leiks í Póllandi og taki þrjú stig og kannski góða frammistöðu í leiðinni, eitthvað sem þær eru að vinna í sem þær taki með sér þaðan."
Athugasemdir
banner
banner
banner