lau 16. október 2021 07:30
Brynjar Ingi Erluson
Þakkar KSÍ fyrir - „Ég var búinn að kveðja í huganum"
Kári Árnason hættir formlega eftir leikinn á morgun
Kári Árnason hættir formlega eftir leikinn á morgun
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Árnason spilar sinn síðasta leik á ferlinum er Víkingur mætir ÍA í bikarúrslitum á Laugardalsvelli á morgun en hann lauk einnig landsliðsferlinum á dögunum og var heiðraður í landsleikjatörninni.

Kári er tekinn við sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingi og mun sinna því starfi af fullum krafti eftir bikarúrslitaleikinn.

Hann ákvað að taka ekki þátt í síðasta landsliðsverkefni og einbeita sér frekar að því að vera í standi fyrir síðasta leik ferilsins.

Kári og Hannes Þór Halldórsson ákváðu báðir að kalla þetta gott eftir magnaðan landsleikjaferil og voru heiðraðir á Laugardalsvelli fyrir leik Íslands og Liechtenstein.

„Ég geng ekki beint heill til skógar. Ég á eina æfingu og einn leik í mér og best að gefa mönnum sem eru fully fit séns á því. Ég átti samtal við landsliðsþjálfarann þar sem þetta var rætt og tekin sameiginleg ákvörðun að það væri best að ég myndi sleppa þessu," sagði Kári um að hafa ekki spilað í október.

Hann var sérstaklega ánægður með KSÍ og vonar að sambandið geri slíkt hið sama við fleiri leikmenn í framtíðinni.

„Ég var svosem búinn að kveðja í huganum en fallega gert af KSÍ að leyfa okkur að koma og gera þetta formlegt að við værum hættir. Það var jákvætt og held að það væri fínt að gera þetta við fleiri leikmenn þegar þeir ákveða að hætta líka," sagði hann í lokin.
Komnir langleiðina með handritið með því að enda á Laugardalsvelli
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner