„Þetta var tilfinningarússíbani," sagði Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, í dag aðspurður hvernig það var að leiða íslenska landsliðið út á völl í fyrsta leik á HM gegn Argentínu í gær.
Aron meiddist á ökkla og hné í leik með Cardiff í lok apríl og þurfti að fara í aðgerð. Hann var í kapphlaupi við tímann fyrir HM en náði að jafna sig í tæka tíð og leiða liðið út á völl í gær.
Aron meiddist á ökkla og hné í leik með Cardiff í lok apríl og þurfti að fara í aðgerð. Hann var í kapphlaupi við tímann fyrir HM en náði að jafna sig í tæka tíð og leiða liðið út á völl í gær.
„ Maður var búinn að bíða eftir þessu augnabliki. Það eru fimm vikur síðan ég fór í aðgerð og ég veit ekki hvernig hægt er að lýsa þessu. Það er erfitt að lýsa því að labba inn á völl og vera loksins kominn í gang."
„Ég var hrikalega stoltur þegar ég labbaði inn á. Ég tók smá tíma til að draga inn andann og upplifa þetta almennilega."
Hugsaði stundum að þetta væri séns
Aron segist ekki hafa alltaf verið viss um að hann myndi ná leiknum gegn Argentínu.
„Það var mikið svekkelsi á tímum. Sumir dagar voru betri en aðrir. Aðra daga hugsaði ég að það væri ekki séns að myndi ná þessu. Það góða við að vera búinn að lenda í svona svipuðum meiðslum, sérstaklega ökklanum, er að ég er vanur því að koma til baka úr þeim. Hnéð var líka mjög gott í gær. Þessar fimm vikur voru mjög erfiðar en þær voru klárlega þess virði þegar ég kom inn á völlinn í gær."
Þakkar fjölskyldunni
Aron hefur hrósað eiginkonu sinni Kristjbjörgu Jónasdóttur og fjölskyldunni fyrir að hafa hjálpað sér í gegnum endurhæfingarferlið.
„Eins og ég hef sagt áður þá hafa Kristbjörg, fjölskyldan og allir ýtt mér áfram. Þau eiga hrós skilið fyrir það. Þegar maður er í fótbolta er erfitt upp á hausinn að gera að vita ekki hvort þú fáir að spila á HM. Það er gott að eiga gott fólk að."
Í góðum gír í dag
Aron segist ekkert finna fyrir meiðslunum í dag. „Það eru gömlu góðu harðsperrurnar í dag og stífleiki. Ökklinn er góður og hnéð er gott. Ég er frábær," sagði Aron í viðtali í dag.
„Ég tek því rólega í dag. Ég tók tvo skokkhringi. Þetta tekur tíma að jafna sig og það er gott að vera með góða sjúkraþjálfara og læknateymi sem hugsar um mig og alla strákana, án gríns til miðnættis."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir