Sóknarmaðurinn Viðar Örn Kjartansson er á förum frá norska félaginu Vålerenga samkvæmt heimildum Fótbolta.net.
Viðar, sem er 32 ára, gekk aftur í raðir Vålerena sumarið 2020. Síðan þá er hann búinn að gera 18 mörk í 40 deildarleikjum, eða mark í tæplega öðrum hverjum leik.
Samkvæmt heimildum síðunnar ætlar Viðar sér að taka nýja áskorun og það er mikill áhugi á þessum mikla markaskorara, meðal annars frá félögum í Asíu.
Ekki er útilokað að hann muni koma heim til Íslands.
Viðar, sem er uppalinn á Selfossi hefur komið víða við á sínum ferli og ásamt því að spila í Noregi þá hefur hann leikið í Svíþjóð, Kína, Rússlandi, Ísrael og Tyrklandi.
Viðar á að baki 32 A-landsleiki fyrir Ísland og hefur skorað í þeim fjögur mörk.
Athugasemdir