mið 17. ágúst 2022 12:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stjórnarmenn Blika og Víkings rífast - Arnar lét boltastrák heyra það
Eftir leik Breiðabliks og Víkinga.
Eftir leik Breiðabliks og Víkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stóra boltasækjaramálið í kringum leik Breiðabliks og Víkings hefur mikið verið til umræðu síðustu daga.

Heimir Gunnlaugsson, formaður knattspyrnudeildar Víkings, ásakaði Blika um óíþróttamannslega hegðun.

„Að nota boltasækja á þennan hátt er eins óíþróttamannslegt og það verður. Vona að menn sem fyrirskipa þetta séu stoltir af sér," skrifaði Heimir á Twitter.

Var hann þarna líklega að ásaka Breiðablik um að fyrirskipa ungum boltasækjurum að kasta boltanum ekki til Víkinga og hægja þannig á leik þeirra.

Stjórnarmenn hjá Víkingum og Breiðabliki fóru í kjölfarið að rífast á samfélagsmiðlinum um þetta mál.

„Hefði ekki verið gott að telja upp á svona eins og 10 eða 15 áður en þú tvítaðir þessu. Auðvitað voru engar fyrirskipanir í þá veru, enda viljum við halda góðu tempói í leikjum - en takk fyrr komuna og skemmtilegan leik," skrifaði Flosi Eiríksson, formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks, og svaraði þannig kollega sínum. Hann þvertekur fyrir þessar ásakanir.

„Höfum upplýsingar um að þetta hafi verið lagt upp svona (staðfest)," skrifaði Sverrir Geirdal, varaformaður Víkinga, og svaraði Flosi honum líka, sagði að það væri tómt kjaftæði.

Stuðningsmenn Blika hafa bent á það að Víkingar hafi áður notað boltasækjara til þess að hjálpa sínu liði, en stjórnarmenn Víkinga segja að það hafi verið gert öðruvísi.

Sváfnir Gíslason, sem er gjaldkeri stjórnar Víkinga, segir að þetta sé algjör skandall. „Sammála, algerlega til háborinnar skammar. Það er eitt að hvetja boltastráka til að vera snöggir að koma bolta í leik til síns liðs, en allt annað og leggja það upp að nánast ekki afhenda andstæðingum boltann. Algjör skandall og álitshnekkir á annars ágætt starf Blika."

Arnar lét boltastrákinn heyra það
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, var orðinn pirraður á boltasækjurunum á meðan leik stóð og sást það í útsendingu frá leiknum er hann lét ungan boltasækjara heyra það í hita leiksins. Myndbandið má sjá hér að neðan.

Það er spurning hvort það sé ekki pæling að skipta út boltakrökkum og hafa bara boltastanda á ákveðnum stöðum á vellinum fyrst svona ágreiningsmál og svona læti eru að koma upp. Einhverjir hafa lagt það til. Börn eiga allavega ekki að þurfa að lenda í þeirri stöðu að öskrað sé á þau fyrir sjálfboðavinnu sem þau eru að vinna.


Athugasemdir
banner
banner