banner
   mið 18. maí 2022 22:49
Brynjar Ingi Erluson
Daniels fyrirgefur Ekpiteta - „Stoltur að vera liðsfélagi þinn"
Jake Daniels
Jake Daniels
Mynd: Getty Images
Jake Daniels, leikmaður Blackpool. stal fyrirsögnunum á Englandi á dögunum er hann opinberaði samkynhneigð sína og varð þar fyrsti virki leikmaðurinn í 30 ár til að gera það á Englandi.

Justin Fashanu var fyrsti atvinnumaðurinn á Englandi sem kom út úr skápnum er hann gerði það árið 1990 en átta árum síðar tók hann eigið líf.

Síðan þá hefur enginn þorað að opinbera samkynhneigð sína eða alveg þangað til fyrir nokkrum dögum er Daniels steig fram.

Þessi 17 ára gamli leikmaður spilaði sinn fyrsta leik fyrir aðallið Blackpool á dögunum og kom síðan út úr skápnum tæpum tveimur vikum síðar.

Marvin Ekpiteta, liðsfélagi Daniels, lét hommafóbísk orð falla á Twitter fyrir tíu árum síðan er hann var sjálfur 17 ára gamall en hann hefur beðist afsökunar á þeim ummælum og tók ábyrgð á þeim en Daniels fyrirgefur honum það.

„Það sem þú sagðir fyrir tíu árum þá 17 ára gamall skilgreinir ekki þann mann sem þú hefur að geyma í dag. Ég er stoltur að vera liðsfélagi þinn og að vera partur af Blackpool-fjölskyldunni. Saman munum við koma fótboltanum á betri stað," sagði Daniels í svari sínu.

Sjá einnig:
Eyddi hommafóbískum skrifum eftir að liðsfélagi kom út úr skápnum


Athugasemdir
banner
banner