fös 18. september 2020 09:52
Magnús Már Einarsson
Solskjær vildi ekki að Greenwood myndi fara til Íslands
Greenwood í leiknum gegn Íslandi.
Greenwood í leiknum gegn Íslandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, segist hafa óskað eftir því að hinn 18 ára gamli Mason Greenwood yrði ekki valinn í enska landsliðshópinn fyrir leikinn gegn Íslandi í Þjóðadeildinni.

Greenwood spilaði sinn fyrsta landsleik gegn Íslandi en hann var síðan rekinn úr enska hópnum eftir að hafa ásamt Phil Foden brotið sóttvarnarreglur með því að bjóða tveimur stelpum upp á hótel enska liðsins.

„Hann er 18 ára strákur sem þarf að stýra. Ég er búinn að ræða við Mason og það sem við töluðum um verður á milli okkar tveggja," sagði Solskjær á fréttamannafundi í dag.

„Strákarnir átti stórkostlegt tímabil. Hann var að koma inn í aðallið og við höfum sem félag lagt hart að okkur við að fylgjast með því hversu mikinn tíma Mason fær á vellinum og í sviðsljósi fjölmiðla."

„Eftir tímabilið voru minna en tvær vikur sem hann fékk í frí áður en hann var valinn í landsliðið. Ég reyndi mitt besta til að gefa honum hvíld í sumar og við báðum sérstaklega um að hann yrði hvíldur (í landsliðinu). Hann þarf hvíld bæði andlega og líkamlega."

„Hann er valinn í landsliðið og hann er strax kominn í sviðsljós fjölmiðla. Við höfum gert það sem við getum til að vernda hann og ég hef reynt að hjálpa honum. Þegar hann kemst aftur í daglega rútínu verður hann í góðu lagi."


Greenwood æfði einn til að byrja með eftir að hafa brotið sóttvarnarreglur en hann er nú byrjaður að æfa með liði United á ný og gæti spilað gegn Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni á morgun.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner