sun 18. desember 2022 18:04
Brynjar Ingi Erluson
Argentína heimsmeistari eftir rosalegasta úrslitaleik í sögu HM
Lionel Messi vann loksins þann stóra
Lionel Messi vann loksins þann stóra
Mynd: EPA
Messi og Di María fagna
Messi og Di María fagna
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Lionel Messi hafði betur gegn liðsfélaga sínum, Kylian Mbappe
Lionel Messi hafði betur gegn liðsfélaga sínum, Kylian Mbappe
Mynd: EPA
Kylian Mbappe skoraði þrennu
Kylian Mbappe skoraði þrennu
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Argentína 7 - 5 Frakkland
1-0 Lionel Messi (f) ('23 , víti)
2-0 Angel Di Maria ('36 )
2-1 Kylian Mbappe ('80 , víti)
2-2 Kylian Mbappe ('81 )
3-2 Lionel Messi (f) ('109 )
3-3 Kylian Mbappe ('117 , víti)
3-4 Kylian Mbappe ('120 , víti)
4-4 Lionel Messi (f) ('120 , víti)
4-4 Kingsley Coman ('120 , misnotað víti)
5-4 Paulo Dybala ('120 , víti)
5-4 Aurélien Tchouaméni ('120 , misnotað víti)
6-4 Leandro Paredes ('120 , víti)
6-5 Randal Kolo Muani ('120 , víti)
7-5 Gonzalo Montiel ('120 , víti)
Lestu um leikinn

Argentína er heimsmeistari í fótbolta eftir sigur á Frakklandi í úrslitaleik HM í Katar á Lusail-vellinum í Lusail. Þetta er fyrsti heimsmeistaratitill liðsins síðan 1986 og er þetta þriðji titillinn frá upphafi mótsins. Staðan var 3-3 eftir framlengingu en Argentína vann 4-2, eftir vítakeppni.

Lionel Scaloni, þjálfari Argentínu, stillti upp 4-4-2 og fékk Angel Di María inn. Þá kom Nicolas Tagliafico í vinstri bakvörðinn í stað Marcos Acuna.

Það að koma Di María aftur inn í liðið var hárrétt breyting hjá Scaloni og átti það heldur betur eftir að sýna sig.

Argentínumenn voru með öll völd á leiknum. Frakkar áttu engin svör við spili þeirra og dró til tíðinda á 22. mínútu. Ousmane Dembele krækti aftan í Di María í teignum og var pólski dómarinn Szymon Marciniak viss og benti á punktinn.

Lionel Messi tók vítaspyrnuna og sendi Hugo Lloris í vitlaust horn, en þetta var sjötta mark Messi á mótinu.



Það benti ekkert til þess að Frakkar myndu jafna. Argentínska liðið hélt áfram að sækja og kom annað markið á 36. mínútu. Dayot Upamecano tapaði boltanum. Messi var fljótur að koma boltanum á Alexis Mac Allister hægra megin og kom hann með konfektsendingu vinstra megin í teiginn á Di María sem skoraði með stórkostlegu skoti yfir öxlina á Lloris.



Didier Deschamps, þjálfari Frakka, gerði tvær skiptingar á 40. mínútu. Hann tók út Ousmane Dembele, sem hafði verið arfaslakur, og þá fór Olivier Giroud einnig af velli, en sú skipting var taktísk. Randal Kolo Muani og Marcus Thuram komu inn og var Kylian Mbappe sendur upp á topp.

Í þeim síðari héldu Argentínumenn áfram að sækja. Rodrigo De Paul átti skot sem fór beint á Lloris og stuttu síðar átti Julian Alvarez skot úr þröngu færi en Lloris varði vel.

Ef það er hægt að treysta á eitthvað þá er það að Frakkar gefast aldrei upp.

Á 79. mínútu braut Nicolas Otamendi á Kolo Muani í teignum. Stór mistök hjá argentínska varnarmanninum og Frakkar með möguleika að komast inn í leikinn. Kylian Mbappe var fljótur að koma sér á punktinn og þruma honum niðri í vinstra hornið.

Emiliano Martinez giskaði á rétt horn en spyrnan var of föst og gat hann ekki komið í veg fyrir að boltinn færi í netið.

Þetta kom Frökkum betur inn í leikinn því aðeins 97 sekúndum síðar jafnaði Mbappe leikinn. Kingsley Coman vann boltann af Messi áður en hann kom honum á Adrien Rabiot. Sá átti góða sendingu á Mbappe, sem tók skemmtilegt þríhyrningsspil með Marcus Thuram áður en hann setti boltann í hægra hornið. Ein ótrúlegasta endurkoma sem sést hefur í úrslitaleik HM.

Þetta var mikil orkustöng fyrir Frakka sem héldu áfram að sækja og ná í sigurmarkið. Besta færið átti þó Messi sem lét vaða fyrir utan teig á sjöundu mínútu í uppbótartíma, en Hugo Lloris var vel á verði og blakaði boltanum yfir markið.

Staðan eftir venjulegan leiktíma, 2-2. Framlengingin bauð upp á mikla skemmtun. Fullt af færum á báða bóga.

Dayot Upamecano átti stórkostlega björgun undir lok fyrri hluta framlengingar. Lautaro Martínez var spilaður í gegn og var búinn að velja sér horn, en Upamecano fleygði sér fyrir boltann og bjargaði þannig marki.

Í síðari hluta framlengingar komust Argentínumenn yfir með marki frá Lionel Messi. Lautaro Martínez fékk sendingu inn fyrir og lét vaða en Hugo Lloris varði frá honum. Boltinn datt fyrir Messi sem kom boltanum inn fyrir línuna. Upamecano var í markinu og náði að hreinsa frá en boltinn var kominn langt fram yfir línuna.

Gonzalo Montiel, varnarmaður Argentínu, handlék boltann í eigin vítateig á 116. mínútu eftir skot Mbappe. Dómarinn var viss í sinni sök og dæmdi aðra vítaspyrnu. Mbappe setti boltann í netið og fullkomnaði þrennu sína.

Liðin skiptust á færum í von um að klára dæmið og fengu Frakkar risastórt tækifæri til að tryggja titilinn en Martínez átti stórkostlega vörslu frá Kolo Muani. Ein stærsta varsla sögunnar. Það fleytti þeim áfram í vítakeppnina.

Argentínumenn höfðu betur í vítakeppninni, 4-2. Mbappe og Messi skoruðu báðir áður en Emilano Martínez varði frá Kingsley Coman.

Aurélien Tchouameni skaut framhjá hjá Frökkum og gerði svo Leandro Paredes þriðja markið og kom Argentínu í 3-1. Randal Kolo Muani minnkaði muninn í 3-2 áður en Montiel skoraði úr sigurspyrnunni. Þriðji heimsmeistaratitill Argentínu staðreynd og Lionel Messi fær loksins þann stóra titil og hefur nú fullkomnað feril sinn. Einn allra besti úrslitaleikur í sögu HM.



Vítakeppnin:
1-0 Kylian Mbappe skorar
1-1 Lionel Messi skorar
1-1 Martínez ver frá Coman
1-2 Paulo Dybala skorar
1-2 Tchouameni skýtur framhjá
1-3 Leandro Paredes skorar
2-3 Randal Kolo Muani skorar
2-4 Gonzalo Montiel


Athugasemdir
banner
banner
banner