Stórliðin berjast um Joao Gomes - Mikill áhugi á Rashford - Hvert fer Kolo Muani?
   fös 19. janúar 2024 14:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðar Ari fer hvergi - „Allt annað hljóð í þjálfaranum eftir síðasta leikinn"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar á að baki sjö leiki með A-landsliðinu.
Viðar á að baki sjö leiki með A-landsliðinu.
Mynd: KSÍ
Lék fjóra leiki með FH í Bestu deildinni í ágúst og skoraði eitt mark.
Lék fjóra leiki með FH í Bestu deildinni í ágúst og skoraði eitt mark.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Viðar var hjá Honved í eitt og hálft ár.
Viðar var hjá Honved í eitt og hálft ár.
Mynd: Honved
Viðar Ari Jónsson var til viðtals hér á Fótbolti.net í síðasta mánuði. Í hlaðvarpsviðtalinu fór Viðar yfir komu sína til FH síðasta sumar, dvölina hjá Honved í Ungverjalandi og svo fyrstu mánuðina hjá HamKam í Noregi.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum neðst og er einnig hægt að nálgast hann á öllum hlaðvarpsveitum.

Viðar, sem er 29 ára, gekk í raðir HamKam í lok félagaskiptagluggans en kom einungis við sögu í tveimur af ellefu leikjum liðsins eftir komu sína.

„Fyrstu mánuðirnir hjá HamKam voru áhugaverðir. Ég fór út í september, ég var lengi að komast inn í þetta, alltof lengi ef þú spyrð mig, en það voru skiptar skoðanir hjá mér og þjálfara. Við vorum ekki alveg á sömu blaðsíðu. Ég fékk sem betur fer að spila síðasta leikinn og það gekk mjög vel hjá mér og ég fékk lof fyrir það," sagði Viðar sem skoraði mark HamKam í 1-1 jafntefli gegn Molde í lokaumferðinni.

Var þetta samt ekki þjálfarinn sem fékk þig til liðsins?

„Það er akkúrat málið, þannig það kom svolítið flatt upp á mig. Við spilum vissulega ákveðna týpu af fótbolta. Hann var ekki tilbúinn að gefa mér sénsinn og þetta var eitthvað fram og til baka. En ég fékk loksins sénsinn og tók hann vel held ég."

„Mjög skrítið að fá mig og svo nota mig ekki mikið"
Viðar getur spilað margar stöður og hefur leyst allar stöður hægra megin á vellinum. Í flestum kerfum er allavega einn hægra megin á vellinum.

„Hann vildi fá mig á kantinn í þriggja hafsenta kerfi. Kantmaðurinn í því kerfi kemur inn á völlinn. Ég persónulega vil frekar spila úti á væng. Það tók rosalega langan tíma að gefa mér mínútur og sjá hvort það myndi virka eða ekki. Ég get líka spilað í vængbakverði og hef spilað þar með."

„Sem betur fer fékk ég lokaleikinn og þetta endaði jákvætt. Þetta var búið að vera blýþungt. Þetta gerði mikið fyrir hjartað og sálina að fá að spila og spila vel."


Viðar valdi að ganga í raðir HamKam, hafði úr möguleikum að velja. Var högg að lenda í þessari stöðu að vera svo ekkert að spila?

„Þetta kom mjög flatt upp á mig. Ég er ekki að tala mig upp, en það var mjög skrítið að fá mig í sumarglugganum fyrir seinna hluta mótsins og svo nota mig ekki mikið."

Þurfti að taka ákvörðun og valdi HamKam
Viðar var búinn að vera í sambandi við HamKam á meðan hann var hjá Honved í Ungverjalandi.

„Þeir byrjuðu þá að hafa samband. Svo kem ég til Íslands og stefnan var sett aftur út. Þeir byrjuðu að hlera stöðuna þegar ég var búinn að vera í 2-3 vikur hjá FH. HamKam var alltaf líklegast, það voru fleiri lið sem voru að skoða og voru ekki langt frá því (að fá mig). HamKam kom með tilboð og það varð fyrir valinu. Ég þurfti bara að taka ákvörðun."

Viðar útskýrði af hverju hann kom til Íslands og lék með FH í mánuð áður en hann fór út aftur. „Þetta var 'win-win' fyrir mig og FH, að ég myndi fá að spila fyrir flott lið og hjálpa þeim. Með því að fá spila hjá þeim þá var ég klárari í næstu áskorun. Auðvitað var ég að skoða aðra kosti, en vissulega líður mér mjög vel í Noregi. Ég er búinn að vera þar í sex ár núna, kominn með norskuna á hreint og krakkarnir og konan búin að vera í Noregi. Það er í raun eins og að koma heim. Ég þekki deildina vel og menn þekkja til mín þar. Ég er spenntur að skoða eitthvað meira en er þokkalega sáttur að vera þar sem ég er núna."

Viðar átti frábært tímabil með Sandefjord tímabilið 2021 og raðaði inn mörkum af kantinum.

„Það kom algjörlega til greina að fara þangað aftur. Það hefði þurft að leysa einhver mál hjá félaginu ef þeir hefðu ætlað að fá mig inn. Ég var í smá lausu lofti hér á Íslandi og langaði að fá botn í þetta. Hamar í Noregi, frábær staður, varð fyrir valinu."

„Brynjar Ingi Bjarnason er líka hjá félaginu, alltaf gott að vera með Íslending. Ég kannaðist kannski við hann áður en ég kom, en í dag erum við bestu vinir, toppmaður."


Langaði aftur út
Var möguleiki að vera áfram í FH?

„Það var alveg pæling, en eins og ég sagði frá byrjun við alla þá langaði mig aftur út. Mér finnst ég eiga erindi í það og var númer 1,2 og 3. Það hefði verið mjög góður kostur að skoða lengri samning, en ég var það hungraður í að fara aftur út. Það var alltaf planið."

Viðar var orðaður við Fram áður en hann samdi við FH í sumar. Af hverju endaði hann í FH?

„Ég hafði spilað í Krikanum áður og það er helsta útskýringin. Ég þekkti til þar og FH dæmið er flott dæmi."

Allt annað hljóð í þjálfaranum núna
Í lok viðtals var Viðar spurður hvað hann langaði að afreka hjá HamKam.

„Það er fyrst og fremst að spila og komast þráin er að komast aftur í gírinn sem ég var í þegar ég skildi við Noreg. Mér fannst það heppnast helvíti vel í síðasta leik. Norski boltinn er skemmtilegur, hentar mér vel, gott tempó og fínir leikmenn. Planið hjá mér er að fá að spila sem mest og verða mikilvægur hlekkur í ágætis liði."

Sagðirðu við þjálfarann eftir síðasta leikinn: „Sjáðu hvað ég get?"

„Ég sagði bara 'play me'. Ég spjallaði við hann og það var allt annað hljóð í honum eftir síðasta leikinn, loksins þegar ég fékk að spila. Ég verð að taka það og halda áfram að sýna mig," sagði Viðar.

Viðar er samningsbundinn HamKam út tímabilið 2024. Hann hefur verið orðaður við KR að undanförnu en Fótbolti.net hefur fengið það staðfest frá umboðsmanninum Ólafi Garðarssyni að Viðar verði áfram úti.
Viðar Ari - Ævintýraþrá og ótrúleg saga
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner