Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 19. febrúar 2020 14:36
Elvar Geir Magnússon
Man City svarar UEFA: Ásakanirnar eru rangar
Khaldoon Al Mubarak, stjórnarformaður Manchester City, og Ferran Soriano framkvæmdastjóri.
Khaldoon Al Mubarak, stjórnarformaður Manchester City, og Ferran Soriano framkvæmdastjóri.
Mynd: Getty Images
Manchester City hefur gefið út þau skilaboð til stuðningsmanna liðsins að ásakanir UEFA um brot á reglum um fjárhagslega háttvísi séu einfaldlega rangar.

Félagið birti í dag viðtal sem það tók sjálft við Ferran Soriano, framkvæmdastjóra félagsins.

Enskir blaðamenn gagnrýna það harðlega að City hafi látið innanbúðarmann taka viðtalið en ekki svarað hlutlausum fréttamanni.

City var á föstudag dæmt í tveggja ára bann frá Meistaradeildinni auk þess sem félagið fékk 30 milljóna evra sekt frá UEFA. Dómnum hefur verið áfrýjað til alþjóðlega íþróttadómstólsins, CAS.

„Stuðningsmenn geta verið vissir um að ásakanirnar eru rangar. Þeir geta líka verið vissir um að við munum gera allt sem hægt er til að sanna það," segir Soriano.

Meint brot Manchester City eiga að hafa átt sér stað milli 2012 og 2016.

„Eigandinn hefur ekki sett neina ólöglega peninga í félagið. Við erum sjálfbært fótboltafélag sem rekið er með hagnaði. Við skuldum ekki og reikningar okkar hafa verið skoðaðir margsinnis af sérfræðingum."

Soriano segir að félagið hafi sýnt samstarfsvilja í rannsókninni og gefið ýmis skjöl og upplýsingar frá sér. Hann segir að félagið sé með sannanir þess efnis að það sé saklaust.

Hann segist telja að menn hafi verið búnir að dæma félagið án þess að sekt þess hafi verið sönnuð.
Athugasemdir
banner
banner
banner