'Eina sem hefur breyst er að núna, ef sambandið hefur áhuga, þarf sambandið ekki að hugsa um að borga fyrir mig'
Freyr Alexandersson var á þriðjudagskvöld rekinn úr starfi sem þjálfari belgíska félagsins Kortrijk. Hann var í tæpt ár í starfi, tók við liðinu í svo gott sem vonlausri stöðu í janúar en náði að halda liðinu uppi með ótrúlegum endaspretti.
Freysi ræddi við Fótbolta.net í dag um brottreksturinn og framhaldið á sínum ferli. Tvö félög hafa þegar sett sig í samband við hann.
Freysi ræddi við Fótbolta.net í dag um brottreksturinn og framhaldið á sínum ferli. Tvö félög hafa þegar sett sig í samband við hann.
„Framtíðin er óljós, þetta er fyrsti dagurinn minn sem atvinnulaus þjálfari. Ég veit og finn að ég er fullur af eldmóð og hef aldrei verið betri en ég er núna, er búinn að læra svo mikið og fá svo mikið út úr þessu. Ég hlakka til að takast á við næsta verkefni, það eru ekki allir þjálfarar sem hafa farið í gegnum það sem ég hef farið í gegnum sem upplifa þá tilfinningu."
„Ég er rólegur, er með verkefni sem ég hef ekki haft tíma í að gera í tölvunni. Ef það kemur ekki neitt spennandi upp þá mun ég örugglega framkvæma þetta verkefni saman með konunni minni."
„Ég þarf ekki að flýta mér, en ég er mjög þakklátur fyrir það að nú þegar eru tvö lið búin að setja sig í samband við mig og vilja fá fund með mér. Ég mun taka þá fundi sem að koma og mun ræða við fólk. Svo bara þarf ég að leyfa sjálfum mér að finna hvað er rétt, hvort sem það verður núna 1. janúar eða næsta sumar. Ég þarf að fá að velta því fyrir mér."
Snýst um að finna rétta aðilann fyrir landsliðið
Freysi hefur verið sterklega orðaður við landsliðsþjálfarastarfið að undanförnu. Er það starf sem hann hefði mikinn áhuga á?
„Ég hef alltaf sagt að íslenska landsliðið er áhugavert starf og ég hef alltaf sagt að ég brenn fyrir íslenska landsliðið, það er nostalgían í mér og liðið er ofboðslega spennandi. Þetta er mjög margþætt, ef að Þorvaldur hefur áhuga á að fá mig í starfið þá hlakka ég til að taka samtalið við hann. Svo þurfum við að finna út úr því hvað sé rétt fyrir íslenska landsliðið. Ákvörðunin sem knattspyrnusambandið mun taka er að finna þann aðila sem er best til þess fallinn að leiða íslenska landsliðið áfram. Ef það er ég, og ég finn það hjá sjálfum mér og KSÍ finnur það, þá er það frábært. En ef það er einhver annar aðili þá er það líka frábært. Ég mun alltaf styðja íslenska landsliðið til árangurs."
„Ég mun alltaf taka samtalið og sagði það líka á meðan ég var í starfi. Eina sem hefur breyst er að núna, ef sambandið hefur áhuga, þarf sambandið ekki að hugsa um að borga fyrir mig. Það ætti að vera jákvætt."
Freysi þekkir vel að starfa hjá KSÍ. Hann var aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins í þjálfaratíð Erik Hamren (2018-20) og var þar áður þjálfari kvennalandsliðsins.
Verður áfram í Belgíu þar til annað kemur í ljós
Geturðu farið út í það hvaða verkefni þú og konan eruð með?
„Þetta er ekki tengt þjálfun, heldur meira tengt stjórnun. Þetta er verkefni sem tengist því að setja saman okkar þekkingu sem getur hjálpað t.d. stjórnendum og kennurum. Okkur hefur alltaf dreymt um að henda þessu í framkvæmd. Ég ætla reyna fá hana í að klára það verkefni, þá eigum við það og svo getum við sett það út í kosmósið við tækifæri."
Freysi segir að planið núna sé að vera áfram búsettur á sama stað, við landamæri Belgíu og Frakklands.
„Börnin okkar eru í skóla í Frakklandi, eru ofboðslega ánægð og standa sig hrikalega vel. Ég verð hér áfram þangað til annað kemur í ljós og börnin mín verða hér áfram allavega út skólaárið," segir Freysi.
Seinna í dag verður birtur sá hluti viðtalsins sem snýr að brottrekstrinum frá Kortrijk.
Athugasemdir