ÞEGAR FH lagði ÍBV að velli í Kaplakrika í Pepsí-deildinni 18. september, 6:4, skoruðu mótherjar þrennu í sama leiknum í fjórða skipti í efstu deild á Íslandi, frá deildaskiptingunni 1955. Gary John Martin skoraði þrjú mörk fyrir ÍBV og Morten Beck Andersen þrjú mörk fyrir FH. Hann setti þrennu í öðrum leiknum í röð og lék eftir 22 ára gamalt afrek Andra Sigþórssonar, KR.
Andersen skoraði þrjú mörk gegn Stjörnunni 31. ágúst, 3:1, og lék það eftir 18 dögum síðar; gegn ÍBV. Andri skoraði 4 mörk gegn Skallagrími 6. ágúst 1997 og skoraði síðan þrjú mörk gegn Val 11 dögum síðar, 6:1.
Þess má geta til gamans að þrisvar sinnum áður höfðu mótherjar sett þrennur í sama leiknum og í tveimur viðureignunum urðu lokatölur, 6:4. Það voru liðin 49 ár frá því að mótherjar settu síðast þrennur.
* Þegar Eyjamenn lögðu Víkinga að velli í Reykjavík 1970, 6:4, skoraði Haraldur Júlíusson, "Gullskallinn!", fjögur mörk fyrir ÍBV, en Hafliði Pétursson skoraði þrjú mörk fyrir Víking.
* Þegar Keflavík vann Val 1965, 4:3, skoraði Einar Magnússon, tannlæknir, þrjú mörk fyrir Keflavík, en Hermann Gunnarsson þrjú mörk fyrir Val.
* Þegar ÍA vann Fram á Melavellinum 1958, 6:4, skoraði Þórður Þórðarson fjögur mörk fyrir ÍA, en Björgvin Árnason, Dalli í Þórscafé, þrjú mörk fyrir Fram.
Fimm sinnum hafa samherjar sett þrennur í leik; síðast Víkingarnir Helgi Sigurðsson og Atli Einarsson, í leik gegn ÍBV á Hallarflötinni í Laugardal 1992, 6:1.
Athugasemdir