Úrslitaleikur enska bikarsins
Undanfarið hafa nokkrir einstaklingar verið að rifja upp sinn eftirminnilegasta leik. Ég ákvað að slá til og rifja upp leik sem ég mun aldrei gleyma.
Þegar ég var ungur þá var Arsenal með frábært lið með menn eins og Henry og Bergkamp í broddi fylkingar. Ég var 9 ára þegar Arsenal fór taplaust í gegnum deildina árið 2004. Ári seinna mættust Arsenal og Manchester United í úrslitum FA Cup. Arsenal vann þann leik í vítaspyrnukeppni. Vieira tryggði sigurinn með lokaspyrnu sinni fyrir félagið. Eftir leikinn þurftu stuðningsmenn Arsenal að bíða 9 ár eftir næsta titli. Í millitíðinni tapaði liðið nokkrum úrslitaleikjum m.a. í deildarbikarnum gegn Birmingham. Leikur sem átti að vera formsatriði að vinna.
17. maí árið 2014 var úrslitaleikur Arsenal – Hull í FA Cup. Það kom ekkert annað til greina en að vera á vellinum og sjá Arsenal mögulega vinna sinn fyrsta bikar í 9 ár. Ég og pabbi skelltum okkur því til London til að verða vitni að þessu. Sumir sögðu við mig að þetta yrði skítléttur leikur og það ætti varla að fagna því að vinna Hull. Það gleymist á leiðinni í úrslitaleikinn sló Arsenal út m.a. Tottenham, Liverpool og Everton. Arsenal var búið að hafa vel fyrir því að komast í þennan leik.
Leikurinn byrjaði skelfilega fyrir Arsenal sem var 2-0 undir eftir 8 mínútur. Mig langaði fara bara beint upp á hótel en sem betur fer sleppti ég því. Stórkostlegt aukaspyrnumark Santi Cazorla á 17. mínútu breytti stöðunni í 2-1. Þannig var staðan í hálfleik.
Í seinni hálfleik sóttu Arsenal stöðugt. Koscielny náði að jafna metin á 71. mínútu. Staðan orðin 2-2 og var þannig út venjulegan leiktíma. Aaron Ramsey náði að skora sigurmark Arsenal í framlengingu og ekki er hægt að lýsa með orðum stemningunni í rauða hluta stúkunnar þegar Lee Probert flautaði framlenginguna af. Arsenal búið ná í bikar í skápinn sem hafði safnað ryki síðustu 9 ár.
Ég bjóst við að Wenger myndi hætta sem þjálfari Arsenal eftir leikinn. Hann gerði það ekki og náði að vinna bikarinn aftur að ári liðnu. Ég var líka á þeim leik og fer kannski nánar yfir það síðar.
FA Cup er elsta og virtasta bikarkeppni heims. Margir vilja meina að sjarmi keppninnar hafi dottið niður á síðustu árum. Það getur vel verið en mér hefur alltaf fundist þessi keppni skemmtileg. Mörg óvænt úrslit hafa gerst og munu halda áfram að gerast.
Það á að fagna öllum titlum og alveg sama hvað lið maður vinnur í úrslitum. Núna eru komin þrjú ár síðan Arsenal vann seinast bikar en það er ekkert miðað við að í 12 ár hefur bara safnast ryk í bikaraskáp Tottenham.
Jón Fannar Árnason
Athugasemdir