Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mið 21. apríl 2021 09:37
Elvar Geir Magnússon
Agnelli segir að Ofurdeildin sé úr sögunni - „Hefði orðið besta keppni heims"
Andrea Agnelli, formaður Juventus.
Andrea Agnelli, formaður Juventus.
Mynd: EPA
Andrea Agnelli, formaður Juventus, segir ljóst að Ofurdeildin verði ekki að veruleika í ljósi þess að ensku félögin sex ákváðu að draga sig út úr áætlununum.

„Í hreinskilni sagt þá verður deildin augljóslega ekki að veruleika," segir Agnelli. Hann segist þó enn sannfærður um að evrópskur fótbolti þurfi á breytingu að halda.

„Ég trúi enn á fegurðina í þessu verkefni, besta keppni heims hefði orðið til. En svo ég sé heiðarlegur þá held ég að þetta verkefni sé ekki lengur á dagskrá."

Chelsea var fyrsta enska félagið sem dró sig út úr keppninni, Manchester City kom í kjölfarið og svo hin ensku félögin.

„Þrátt fyrir að þrýstingur hafi gert það að verkum að ensku félögin neyddust til að yfirgefa verkefnið þá erum við sannfærðir um það stenst evrópsk lög og reglur," segir Agnelli.

Sögusagnir fóru af stað í gær um að Agnelli ætlaði að segja af sér hjá Juventus eftir tíðindin í gærkvöldi en hann hefur neitað því.

Þrátt fyrir að hugmyndir um Ofurdeildina hafi fjarað fljótt út hefur forseti Real Madrid, Florentino Perez, sagt að vinna við að koma keppninni á laggirnar myndi halda áfram. Það sé áfram skoðun hans að breytinga væri þörf í landslagi evrópska fótboltans.
Athugasemdir
banner
banner
banner