Bayern München gæti gert óvænt tilboð í Rashford - Liverpool hafnaði fyrirspurn Bayern um Díaz og ætlar ekki að selja hann
   mið 21. október 2020 10:08
Magnús Már Einarsson
Hvað verður um grasleikina sem eftir eru í Pepsi Max-deildinni?
FH og KR gætu mæst í Skessunni í næstsíðustu umferðinni.
FH og KR gætu mæst í Skessunni í næstsíðustu umferðinni.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
KA gæti spilað á Dalvík á meðan ÍA gæti farið inn í Akraneshöllina.
KA gæti spilað á Dalvík á meðan ÍA gæti farið inn í Akraneshöllina.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Fjölnir ætlar að klára heimaleiki sína í Egilshöll.
Fjölnir ætlar að klára heimaleiki sína í Egilshöll.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í dag verður birt nýtt leikjaplan fyrir síðustu fjórar umferðirnar í Pepsi Max-deild karla en ljóst er að spilað verður vel inn í nóvember mánuð. Íslandsmótið hefur hingað til klárast í síðasta lagi í byrjun október en breyttar aðstæður eru í ár vegna kórónuveiru faraldursins.

Fimm lið í deildinni eru með grasvelli sem heimavelli en þessi lið eiga átta heimaleiki eftir á tímabilinu. Útlit er fyrir að þessir leikir færist yfir á gervigras en ÍA heldur því þó ennþá opnu að spila á grasvelli sínum.

FH í Skessuna og KR á gervigrasið sitt?
FH á eftir heimaleik gegn KR í 21. umferð og ólíklegt er að sá leikur geti farið fram á Kaplakrikavelli. FH gæti þá fært leik sinn inn í knatthús sitt, Skessuna. „Við erum að bíða eftir því hvenær hann verður. Við teljum mjög ólíklegt að okkar völlur verði í lagi á þeim tíma þó að við vonum það. Við erum aðeins að skoða hvar okkur ber niður. Við erum með Skessuna en við eigum ekki gervigras úti. Það er annað hvort að spila í Skessunni eða við þurfum að semja við eitthvað af okkar góðum vinum að spila á góðum gervigrasvelli," sagði Valdimar Svavarsson, formaður knattspyrnudeildar FH við Fótbolta.net í dag.

Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, reiknar með að síðasti heimaleikur liðsins færist yfir á gervigrasvöll félagsins. Búast má við áhorfendabanni og Páll vonast til að KR megi þá spila gegn KA á gervigrasvelli sínum.

Óvíst hjá ÍA - KA á Dalvík?
Arnar Grétarsson, þjálfari KA, greindi frá því í útvarpsþætti Fótbolti.net á X-inu á dögunum að félagið vilji spila síðustu tvo heimaleiki sína á gervigrasvellinum á Dalvík. Boginn kemur einnig til greina hjá KA.

ÍA á tvo heimaleiki eftir. Ef Norðurálsvöllurinn verður ekki í lagi þá færast þeir væntanlega inn í Akraneshöll. „Völlurinn er góður eins og er en það getur breyst á einum degi. Við ætlum að sjá til og skoða stöðuna," sagði Magnús Guðmundsson, formaður knattspyrnudeildar.

Fjölnir tilkynnti síðan fyrir nokkrum vikum að félagið myndi spila síðustu tvo heimaleiki sína inni í Egilshöll.

Leikirnir sem eru eftir í deildinni

Frestaður leikur
Stjarnan - KR

19. umferð
KA - FH
Fylkir - Valur
Stjarnan - ÍA
Fjölnir - KR
Víkingur R. - Grótta
Breiðablik - HK

20. umferð
KR - KA
ÍA - Breiðablik
Víkingur R. - Stjarnan
Grótta - FH
HK - Fylkir
Valur - Fjölnir

21. umferð
Fylkir - ÍA
KA - Valur
Fjölnir - HK
Breiðablik - Víkingur R.
FH - KR
Grótta - Stjarnan

22. umferð
Grótta - KR
HK - KA
Víkingur R. - Fylkir
Stjarnan - Breiðablik
ÍA - Fjölnir
Valur - FH
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner