Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   mán 22. febrúar 2021 09:30
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Hugleiðingar um Toppfótbolta
Páll Kristjánsson skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Páll Kristjánsson formaður knattspyrnudeildar KR.
Páll Kristjánsson formaður knattspyrnudeildar KR.
Mynd: Fótbolti.net
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aðalfundur Íslensks Toppfótbolta var haldinn í liðinni viku. Nýir menn komu inn í stjórn og nýr formaður tók við. Ber að óska þeim til hamingju og velfarnaðar í starfi.

En hvað er Íslenskur Toppfótbolti og hver er tilgangur þessara samtaka? Hafa samtökin, sem nú fylla næstum tíu ár, náð markmiðum sem að var stefnt eða villst af leið?

Á þeim tíu árum sem liðin eru hefur aðildarfélögum fjölgað hratt. Samtökin hafa ekki aðeins opnað dyrnar fyrir úrvaldsdeild kvenna, heldur einnig næstefstu deildum karla og kvenna. Nú er svo komið að að öll helstu félög landsins, sem sinna hefðbundnu barna-, unglinga- og meistaraflokksstarfi, eiga aðild að Toppfótbolta.
Er þá von að spurt sé hvort ekki hefði verið betur heima setið?
Samtökin eru núna orðin að hálfgerðri deild innan KSÍ. Öll aðildarfélög Toppfótboltans eru aðilar að KSÍ og skrifstofa Toppfótboltans er á skrifstofu KSÍ.

Hver er eiginlegur tilgangur og markmið samtakanna annað en að spegla starfsemi KSÍ? Af hverju annast KSÍ ekki málefni þessara félaga? Af hverju treystir Toppfótboltinn ekki KSÍ fyrir verkefninu? Af hverju er forsvarsmönnum KSÍ ekki treyst fyrir því verkefni að leiða gerð sjónvarpssamninga sem er í dag mikilvægasta málefni Toppfótbolta? Hvaða kosti sjá félög á borð við Augnablik, Selfoss og Haukar í því að fela Toppfótbolta að leiða þá vinnu?

Þar erum við komin að kjarna málsins. Íslenskur Toppfótbolti er ekki lengur sérstakur félagsskapur liða í fremstu röð, heldur er þetta félagsskapur sem stendur opinn svo að segja öllum. Toppfótbolti þjónar ekki hagsmunum stærstu félaganna eins og lagt var upp með. Samtökin eru ekki á þeim stað sem stefnt var að, heldur hafa þau þanist út eins og sveitarfélag og gera lítið annað en enduróma starfsemi KSÍ. Íslenskur Toppfótbolti sinnir í þessu formi aðeins verktöku fyrir KSÍ.

Íslensk topplið hafa umtalsverðra hagsmuna að gæta í rekstri sínum og starfsumhverfi og liðin þurfa að reka öfluga hagsmunabaráttu til að tryggja þá hagsmuni. Og traustur þjónn má ekki eiga marga herra. Toppfótboltinn, með alla sína félagsmenn, ætlar að tala máli allra en mun ekki ná því marki að óbreyttu. Toppfótboltinn er kerfislega, stjórnskipunarlega, jafnilla til þess fallinn eins og KSÍ.

Ég tel tímabært að forsvarsmenn Íslensks Toppfótbolta velji sér herra og starfi í hans raunverulegu þágu. Að öðrum kosti má félagsskapurinn heita deild innan KSÍ.
Athugasemdir
banner
banner