Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 22. febrúar 2021 18:39
Brynjar Ingi Erluson
Katar: Svekkjandi tap Al Arabi gegn lærisveinum Xavi
Freyr Alexandersson stýrði Al Arabi en Heimir Hallgrímsson er með kórónaveiruna
Freyr Alexandersson stýrði Al Arabi en Heimir Hallgrímsson er með kórónaveiruna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Al Sadd vann dramatískan 3-2 sigur á Al Arabi í stjörnudeildinni í Katar í kvöld en heimamenn skoruðu tvö mörk á lokamínútum leiksins.

Liðin áttust seinast við í úrslitaleik Emír-bikarsins þann 18. desember og hafði Al Sadd þar betur, 2-1.

Eftir þann leik hrökk Al Arabi í gang og hefur unnið sex leiki og gert tvö jafntefli.

Al Arabi byrjaði vel gegn Al Sadd í deildinni í dag og komst yfir á 10. mínútu með marki frá Sebastian Soria. Staðan 1-0 í hálfleik fyrir gestina.

Á 63. mínútu jafnaði Hassan Al-Haydos fyrir Al Sadd áður en Youssef Msakni kom Al Arabi aftur yfir á 77. mínútu. Það leit allt út fyrir að gestirnir myndu hafa sigur af lærisveinum Xavi en aftur var það Baghdad Bounedjah sem reyndist Al Arabi erfiður.

Hann jafnaði metin á 90. mínútu áður en Santi Cazorla tryggði sigurinn tveimur mínútum síðar. Lokatölur 3-2 fyrir Al Sadd sem er í efsta sæti deildarinnar með 47 stig á meðan Al Arabi er í 6. sæti með 23 stig.

Heimir Hallgrímsson var ekki á hliðarlínunni hjá Al Arabi í dag þar sem hann greindist með kórónaveiruna á dögunum en aðstoðarmaður hans, Freyr Alexandersson, stýrði liðinu í fjarveru hans.

Aron Einar Gunnarsson átti þá upphaflega að byrja leikinn í kvöld en meiddist í upphitun.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner