Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 22. mars 2020 17:13
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Harpa Þorsteinsdóttir - Þakklætiskveðja
Einar Páll Tamimi skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Harpa Þorsteinsdóttir.
Harpa Þorsteinsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Harpa umkringd varnarmönnum í leik gegn Val..
Harpa umkringd varnarmönnum í leik gegn Val..
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Greinarhöfundur, Einar Páll Tamimi skrifar úr sóttkví.
Greinarhöfundur, Einar Páll Tamimi skrifar úr sóttkví.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ég var að þvælast erlendis þegar ég las á netmiðlum sl. föstudag að Harpa Þorsteinsdóttir hefði ákveðið að hætta knattspyrnuiðkunn og leggja skotskóna á margfræga hillu.

Þó svo þetta væri kannski ekki alveg óvænt í ljósi þeirra meiðsla sem Harpa hefur verið að glíma við – og enn skiljanlegra þar sem hún mun vera með barni – komst ég engu að síður hálft í hvoru við. Fyrir mér markar þessi ákvörðun Hörpu þáttaskil í íslenskri kvennaknattspyrnu, enda hverfur með henni af vettvangi besta knattspyrnukona sem leikið hefur á Íslandi síðustu ár og ein sú allra besta frá upphafi.

Ég kynntist Hörpu þegar hún snéri aftur til uppeldisfélags síns Stjörnunnar árið 2011, eftir stutta heimsókn til fjandvina okkar í Kópavogi. Hún hafði eignast son þá um vorið en var komin aftur á völlinn um mitt sumarið. Þrátt fyrir að þurfa eðlilega tíma til að komast í sitt besta form, náði hún að skora sex mörk á tímabilinu og átt mikilvægan þátt í því að Stjarnan varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn.

Hafi Harpa sýnt hvers hún er megnug árið 2011, var það aðeins upptaktur að þeim hamförum sem hún fór árin sem fylgdu í kjölfarið. Harpa átti eftir að vinna þrjá Íslandsmeistaratitla til viðbótar, verða bikarmeistari þrisvar, vinna urmul af smærri titlum og komast í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu.

Hún átti eftir að verða markahæsti leikmaður Íslandsmótsins í þrígang og vera valin besti leikmaður Íslandsmótsins jafn oft. Þá átti Harpa eftir að marka djúp spor með íslenska landsliðiinu með því að verða markahæsti leikmaður undankeppni EM 2017, nokkuð sem enginn Íslendingur hefur afrekað fyrr eða síðar.

En gæði Hörpu verða ekki bara mæld í áþreifanlegri tölfræði. Hún er risastór persónuleiki sem farið hefur fyrir sínu liði í þeim árangri sem það hefur náð. Hennar háttur er að vera fremst meðal jafningja, hún lætur verkin tala og hrífur þannig samherja sína með sér. Harpa þarf ekki að öskra sig hása til þess að leikmenn í kringum hana stígi upp.

Það er einfaldlega ómögulegt að vera farþegi í liði sem Harpa leikur með. Hún er þeirrar gerðar að geta leitt án þess að skarta bandi um arminn sem veitir henni formlegt umboð til þess. En fyrst og síðast er Harpa frábær félagi og öll þau ár sem ég var formaður og hún leikmaður man ég ekki eftir svo mikið sem einu tilviki þar sem ég hafði einhverjar athugasemdir við hennar háttsemi innan eða utan vallar.

Leikmenn og manneskjur eins og Harpa Þorsteinsdóttir vaxa ekki á trjánum. Það hefur verið gæfa Stjörnunnar að njóta krafta þessa besta knattspyrnumanns sem félagið hefur alið öll þessi ár og heiður minn að fá að vera samferðarmaður hennar. Fyrir hönd Stjörnunnar og míns sjálfs þakka ég fyrir þennan tíma og óska Hörpu alls hins besta í hverju sem hún kann að taka sér fyrir hendur.

Úr sóttkví í Garðabæ, 22. dag marsmánaðar 2020.

Einar Páll Tamimi
Stjórnarmaður í knattspyrnudeild Stjörnunnar
Formaður meistaraflokksráðs kvenna 2008 til 2019
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner