fim 22. apríl 2021 10:00
Ívan Guðjón Baldursson
Heimild: umfg 
Grindvíkingar skoða að skipta yfir á gervigras
Lengjudeildin
Mynd: Grindavík
Mynd: Fótbolti.net - Benóný Þórhallsson
Knattspyrnufélagið Grindavík, sem leikur í Lengjudeildinni bæði í meistaraflokki karla og kvenna, er að skoða að breyta aðalknattspyrnuvelli sínum yfir í gervigras.

Grindavík hefur stofnað starfshóp sem mun vinna forathugun og skila skýrslu til bæjarráðs Grindavíkur í haust. Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdastjóri UMFG, Helgi Bogason, varaformaður, og Ragnheiður Þóra Ólafsdóttir, formaður unglingaráðs, mynda starfshópinn.

„Knattspyrnudeild Grindavíkur fagnar allri umræðu, sem og framkvæmdum, sem snýr að betri aðstöðu íþrótta hér í bæ. Var það tillaga deildarinnar að ráðast í forathugun á kostum og göllum þess að leggja gervigras á keppnisvöll félagsins og vinna hana með sambærilegum hætti og þegar Valur fór í sambærilega athugun á sínu svæði árið 2015," segir meðal annars í frétt á vefsíðu umfg.

„Mikil þörf á aukinni æfinga- og keppnisaðstöðu. Æfingaaðstaða knattspyrnudeildar Grindavíkur yfir sumartíma er góð fyrir alla iðkendur deildarinnar og nær það tímabil yfir ca. 4 mánuði á ári. Aðra mánuði ársins er ekki sömu að segja.

„Þrátt fyrir að knatthúsið Hópið hafi gjörbreytt æfingaaðstöðu og nýtist sérlega vel fyrir iðkendur, ekki síst fyrir þá yngri, þá er æfinga- og keppnisaðstaða ekki eins og ætla má í íþróttabæ sem Grindavík er á ársgrundvelli."


Grindavík hefur undanfarin ár fengið lánaða gervigrasvelli hjá öðrum knattspyrnufélögum til að spila fótboltaleiki yfir vetrartímann.

„Gervigrasvöllur þarf að sjálfsögðu að uppfylla staðla UEFA og FIFA. Undirlag þarf að vera upphitað, með úðunarkerfi og völlur upplýstur. Með því er reynt að tryggja notkun á vellinum nánast allt árið um kring. Væntanlega væri horft til þess að núverandi gras á aðalvelli félagsins yrði skipt út fyrir gervigras og þá er mjög aðkallandi að aðstaða við Hópið og stúku verði bætt og ráðist í þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru.

Knattspyrnudeild Grindavíkur leggur mikla áherslu á að verkefnið sé vel undirbúið og bindur miklar vonir við að forathugun muni færa fram niðurstöðu hvort grundvöllur sé fyrir því að færa aðalknattspyrnuvöll félagsins frá náttúrulegu grasi yfir í gervigras."

Athugasemdir
banner
banner
banner