Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
banner
   mán 22. júlí 2024 10:55
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Grealish enn á nálum út af innbroti á heimili hans
Jack Grealish.
Jack Grealish.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Jack Grealish, leikmaður Englandsmeistara Manchester City, er sagður á nálum eftir að brotist var inn á heimili hans í desember síðastliðnum.

Verðmætum fyrir meira en 1 milljón punda var stolið þegar glæpagengi braust inn á heimili hans í desember. Grealish var í útileik gegn Everton þegar innbrotið átti sér stað en tíu meðlimir úr fjölskyldu hans voru á heimilinu þegar gengið braust inn.

Sasha Attwood, kærasta Grealish sem á nú von á þeirra fyrsta barni, var á heimilinu þegar brotist var inn.

Lögreglan í Cheshire hefur enn engan handtekið vegna málsins og Grealish er sagður á nálum vegna þess. Heimildarmaður The Sun segir: „Jack óttast að þeir verði aldrei handsamaðir. Hann er miður sín vegna þess og það hefur haft slæm áhrif á hann og fjölskyldu hans."

Talið er að innbrotsþjófarnir hafi flúið land.

„Jack hefur áhyggjur af því að þeir náist aldrei og þeir muni svo gera þetta aftur."

Grealish, sem er 28 ára, er á undirbúningstímabili með Man City en þetta mál er sagt hafa slæm áhrif á hann.
Athugasemdir
banner