„Þetta er mjög góð tilfinning. Það var mikilvægt að byrja á þremur stigum og það er gott að fá sigur heima fyrir framan okkar fólk," sagði landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir í samtali við Fótbolta.net eftir 1-0 sigur gegn Wales í fyrsta leik í Þjóðadeildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland 1 - 0 Wales
Hver var lykillinn að því að vinna þennan leik?
„Kannski ekki það sem við bjuggumst við að yrði lykillinn. Við þurftum að verjast mikið sem mér fannst við gera gríðarlega vel. Þær voru ekki að skapa sér færi. Við vorum að verjast sem ein heild. Það var gott að skora úr föstu leikatriði, svolítið íslenskt."
Glódís átti stórkostlegan leik í vörninni en hún skoraði jafnframt sigurmarkið. „Þetta var frábær bolti hjá Amöndu. Við vorum búnar að æfa þetta."
Þetta er í fyrsta sinn þar sem íslenskt landslið vinnur leik í Þjóðadeildinni en karlalandsliðið lék sinn fyrsta leik í keppninni árið 2018.
„Já okei, ég vissi það ekki. Það skiptir máli að byrja á sigri og það skiptir máli að fá sjálfstraust inn í þessa keppni. Leikirnir verða erfiðari héðan í frá. Við fáum að fagna í kvöld en svo er einbeiting á næsta leik."
Það voru þrír miðverðir í íslenska liðinu í kvöld. Ásamt Glódísi þá voru Guðrún Arnardóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir í liðinu en þær áttu báðar góðan leik.
„Þær eru báðar gríðarlega góðar og þær gera mig betri. Ég fagna því og þær spiluðu báðar mjög vel í dag," sagði Glódís.
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
Fyrirliðinn fer fyrir liði sínu! Glódís Perla skorar fyrsta mark leiksins fyrir Ísland á 18. mínútu. pic.twitter.com/KFzbi6MU5t
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) September 22, 2023
Athugasemdir