Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fim 22. desember 2022 15:39
Hafliði Breiðfjörð
Heimild: Fundargerð KSÍ 
KSÍ samþykkir á stjórnarfundi að styðja ekki Infantino aftur
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ.
Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Stjórn KSÍ ákvað á fundi sínum 8. desember síðastliðinn á Selfossi að styðja ekki við framboð Gianni Infantino til endurkjörs sem forseti FIFA.  Kjörið fer fram 23. mars næstkomandi í Rúanda en Infantino er sá eini sem bauð sig fram.


FIFA hefur legið undir mikilli gagnrýni fyrir framkomu á Heimsmeistaramótinu í Katar sem lauk 18. desember síðastliðinn. Þar var fyrirliðum liðanna meðal annars bannað að bera regnbogafyrirliðaband til stuðnings samkynhneigðum, fréttamanninum Grant Wahl að mæta í bol í regnbogahlutunum og höfnuðu beiðni Volodymyr Zelenskyy forseta Úkraínu að halda ræðu fyrir úrslitaleikinn.

Vanda Sigurgeirsdóttir formaður KSÍ var í viðtali á Fótbolta.net 23. nóvember síðastliðinn þar sem hún sagði að KSÍ hafi ætlað að styðja Infantino en búast mætti við breytingu þar á í kjölfar framkomu hans á HM.

„Við hjá KSÍ sendum inn stuðningsbréf. Rökin á bak við það eru að ef horft er til lengri tíma þá hefur Infantino komið ýmsu góðu í verk. Hinsvegar í ljósi síðustu daga og þeirra vonbrigða sem við urðum fyrir með Infantino og FIFA munum við endurskoða þessa ákvörðun. Umræða um það mun fara fram á næsta reglubundna stjórnarfundi í desember. Við höfum einnig komið vonbrigðum okkar skýrt á framfæri við fulltrúa FIFA," sagði Vanda í nóvember.

Stjórnarfundurinn fór svo fram 8. desember síðastliðinn í félagsaðstöðu knattspyrnudeildar Selfoss. Í fundargerð fundarins er rætt um þetta málefni og þar kemur fram að Infantino njóti ekki lengur stuðnings KSÍ.

„Rætt um málefni FIFA. Stjórn KSÍ lýsir yfir vonbrigðum með tilteknar ákvarðanir Alþjóða knattspyrnusambandsins (FIFA), sem hafa verið teknar í tengslum við Heimsmeistarakeppni karlalandsliða í Katar. Í ljósi þessa hefur stjórn KSÍ ákveðið að styðja ekki við framboð Gianni Infantino til forseta FIFA," segir í fundargerðinni.


Athugasemdir
banner
banner
banner