Drulluþreyttur og ringlaður en með sálina svo tindrandi bjarta sit ég í lest ásamt öðrum íslenskum íþróttafréttamönnum sem fylgja íslenska landsliðinu eftir í Frakklandi. Við erum á leið aftur heim til Annecy, í fallega bæinn við alpana þar sem strákarnir okkar hafa sitt aðsetur.
Talað var um á fréttamannafundi að landsliðsmönnunum væri farið að líða eins og hótel þeirra í Annecy væri annað heimili. Það sama má segja um okkur í íslensku pressuhópnum þó okkar hótel sé öllu fábrotnara. Þar má samt finna besta lasagne Frakklands.
Þegar pakkað var niður og haldið til Frakklands á þriðjudaginn átti maður þá ósk að maður myndi snúa aftur til Annecy og halda ævintýrinu áfram. Þó það kosti áframhald á óreglulegum svefni, óreglulegum máltíðum, ferðalögum, endalausum vopnaleitum og nauðsynlegri innkaupaferð í H&M. Þetta er bara svo stjarnfræðilega gaman.
Þeir sem voru á Stade de France í gær munu aldrei gleyma þessari upplifun og Íslendingar voru ákveðnir í að kreista fram hvern dropa úr henni. Það þurfti að sópa fólki út af leikvanginum.
Allt ætlaði um koll að keyra þegar sigurmark Arnórs kom. Í fréttamannastúkunni slepptu menn af sér beislinu og fögnuðurinn var ósvikinn. Kollegar okkar frá öðrum löndum brostu með. Það má kalla okkur klappstýrur en auðvitað erum við stuðningsmenn landsliðsins eins og allir aðrir Íslendingar. Eftir að hafa þurft að horfa upp á ungverska fjölmiðlamenn brosa í hring í sæluvímu eftir leikinn síðasta laugardag var tilfinningin öllu betri í París.
Liðið gefur sig allt í þetta verkefni og hefur hlotið verðskuldað lof frá umheiminum. Liðsheildin og stemningin vekur mikla athygli og áfram heldur þetta lið að færa þjóðinni kappleiki sem eru ógleymanlegir. Leikurinn í gær fer á toppinn en fellur vonandi niður í annað sætið á mánudaginn.
Ég var í skýjunum með það að komast á England - Slóvakía á dögunum enda alltaf stefnt á að sjá England á stórmóti. Á mánudaginn fæ ég aftur að sjá England á stórmóti. Þá gegn Íslandi í 16-liða úrslitum. Þetta er allt svo óraunverulegt.
Þrír leikir að baki og þeir sem hafa verið valdir menn leiksins hjá Fótbolta.net eru Hannes markvörður og miðverðirnir Kári og Raggi. Ef þeir þrír halda áfram í sama gír gæti allt gerst í Nice.
Athugasemdir