Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   mið 23. október 2024 14:03
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Tékkar í tvö stór box í sama mánuðinum - „Sem betur fer er þetta verkefni í þessari viku"
,,Það er ógeðslega gaman og ég er mjög þakklát"
Icelandair
Heiða á landsliðsæfingu í gær.
Heiða á landsliðsæfingu í gær.
Mynd: KSÍ
Varð Íslandsmeistari fyrr í þessum mánuði.
Varð Íslandsmeistari fyrr í þessum mánuði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Var í lykilhlutverki hjá Breiðabliki sem aftasti hlekkur á tígulmiðju.
Var í lykilhlutverki hjá Breiðabliki sem aftasti hlekkur á tígulmiðju.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heiða Ragney Viðarsdóttir var í síðustu viku kölluð inn í íslenska landsliðshópinn í fyrsta sinn á sínum ferli. Hún var kölluð inn fyrir Alexöndru Jóhannsdóttur, leikmann Fiorentina, sem glímir við meiðsli.

Heiða Ragney er leikmaður Breiðabliks og fagnaði Íslandsmeistaratitli með liðinu fyrir rúmum hálfum mánuði síðan. Hún átti mjög gott tímabil og var valin í lið ársins hér á Fótbolti.net.

Íslenska landsliðið er mætt til Austin í Texas og undirbýr sig þar fyrir tvo vináttuleiki gegn Bandaríkjunum. Heiða Ragney, sem er 29 ára djúpur miðjumaður, ræddi við Fótbolta.net.

„Það var hringt í mig á fimmtudagskvöld, Steini landsliðsþjálfari hringdi og spurði hvort ég kæmist með til Bandaríkjanna. Ég svaraði strax já. Ég var að vinna á ráðstefnu í Hörpunni sem var alla helgina, vinnudagarnir voru búnir að vera mjög langir og þetta var ekki alveg símtalið sem ég var að búast við á þessu kvöldi. Þetta var mjög óvænt og skemmtilegt. Ég náði að klára ráðstefnuna og svo var bara beint út til Bandaríkjanna," sagði Heiða Ragney.

„Ég þekkti ekki símanúmerið hjá Steina, hann kynnti sig og ég var smá tíma að meðtaka þetta. Svo spurði hann hvort ég kæmist með. Hann gleymdi reyndar að segja mér hvenær við værum að fara. Ég sagði samt auðvitað bara já."

„Ég var mjög hissa, var ekkert að búast við þessu og var ekkert búin að heyra að ég væri nálægt þessum hóp eða neitt svoleiðis. Auðvitað ógeðslega gaman, skemmtilegt að koma til Bandaríkjanna og gaman að fá að vera í þessum hóp, hef aldrei áður verið í honum."

„Ég var akkúrat í vinnunni þegar Steini hringdi þannig fyrsta samtalið eftir það var við yfirmanninn til að ganga úr skugga um hvort ég mætti ekki alveg örugglega fara. Svo hringdi ég í mömmu og pabba og sagði þeim fréttirnar, allir svakalega glaðir fyrir mína hönd."


Heiða vinnur á Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands sem var með ráðstefnu í Hörpu í liðinni viku.

„Guði sé lof þá er yfirmaðurinn minn mjög sveigjanlegur, þetta var góður tímapunktur upp á vinnuna að gera. Það var mjög mikið að gera í síðustu viku og sem betur fer er þetta verkefni í þessari viku en var ekki í þeirri síðustu."

Mikið þakklæti
Hvernig er að vera komin inn í landsliðshópinn í fyrsta sinn?

„Það er ógeðslega gaman og ég er mjög þakklát fyrir þetta tækifæri. Að fá að taka þátt í þessu verkefni er mjög skemmtilegt, að vera í Bandaríkjunum og það eru leikir gegn Bandaríkjunum. Ég er mjög þakklát og gaman að fá að vera með."

Bandaríska liðið er í efsta sæti á heimslista FIFA og varð Ólympíumeistari í sumar. Heiða lék á sínum tíma í háskólaboltanum vestanhafs.

„Ég hef alltaf mjög gaman af bandaríska liðinu af því ég bjó hérna á sínum tíma og fylgist vel með liðinu. Þetta er það landslið sem ég hef kannski fylgst hvað mest með í gegnum tíðina og það verður gaman að upplifa þessi leiki."

„Ertu ekki að grínast?"
Heiða segir ekkert hafa komið sér mikið á óvart í verkefninu til þessa, hún sé að fylgjast vel með og læra á umhverfið. Hún segir að komast í landsliðið hafi svo sannarlega verið box sem hún vildi ná að tékka í á ferlinum.

„Já, ertu ekki að grínast? Að verða Íslandsmeistari og vera svo valin í landsliðið á sama ári, það er bara algjört 'jackpot' og ég er ógeðslega ánægð. Ég hef ekkert verið í kringum landsliðið síðan ég var í U17. Þetta var bara ótrúlega skemmtilegt og óvænt líka. Ég er mjög sátt og gott box sem ég er núna búin að merkja við á tékklistanum."

„Gott að vita að maður sé þetta nálægt"
Þegar Heiða hugsar til baka þá telur hún að hún hafi fyrir þetta verkefni aldrei verið eins nálægt landsliðshópnum.

„Eftir gott tímabil, sinnti mínu hlutverki í Breiðabliki vel. Ég hugsa að ef það hefði átt að vera einhvern tímann, þá væri það núna, en ég bjóst samt ekki við því að fá símtalið fyrir þetta verkefni. Það er gott að vita núna að maður sé þetta nálægt þessu og þá hefur maður þetta meira sem markmið að vera allavega í kringum landsliðshópinn."

Heiða segir að hún sé ekkert endilega að gera sér vonir um að koma við sögu í leikjunum sem framundan eru. Fyrri leikurinn fer fram annað kvöld og seinni leikurinn fer fram á sunnudagskvöld.

„Ég er í fyrsta sinn í hópnum sem er frábært skref, en ef ég myndi fá mínútur, fyrsta A-landsleikinn, þá væri það náttúrulega algjör plús. Ég ætla ekki að setja einhverja pressu á það. Það mun bara koma í ljós," sagði Heiða.

Athugasemdir
banner
banner
banner