Liverpool reynir við Pedro næsta sumar - PSG til í að opna veskið fyrir Isak - Nico Williams eftirsóttur
   lau 24. september 2022 21:04
Elvar Geir Magnússon
Ísak með sýkingu í tönn og dregur sig úr U21 hópnum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Snær Þorvaldsson hefur dregið sig úr U21 landsliðshópnum vegna sýkingar í tönn. Í hans stað kemur Hilmir Rafn Mikaelsson, sem er hjá Venezia á Ítalíu, inn í hópinn. Hilmir er 18 ára gamall og var í verkefni með U19 landsliðinu.

Ísak er þriðji sóknarmaðurinn sem dettur út eftir að upphaflegi U21 hópurinn var opinberaður. Kristall Máni Ingason fór út vegna meiðsla og var ekki með í fyrri leiknum gegn Tékklandi í gær. Sævar Atli Magnússon fékk svo gult spjald í leiknum og verður í banni í seinni leiknum.

Ísland tapaði 1-2 fyrir Tékklandi á Víkingsvelli í gær en liðið heldur á morgun út til Tékklands þar sem seinni leikurinn verður á þriðjudag. Sigurliðið tryggir sér sæti í lokakeppni EM.

Ísak og Sævar Atli voru báðir í byrjunarliðinu í gær og ljóst að Davíð Snorri Jónasson þarf að gera nokkrar breytingar á byrjunarliðinu. Einn af þeim sem kemur klárlega inn er Kristian Nökkvi Hlynsson sem var í banni í gær.

Þá er spurning hvort einhverjir af þeim leikmönnum sem eru á U21 aldri komi úr A-landsliðinu í ljósi þess að komandi landsleikur gegn Albaníu skiptir engu máli. Ísrael vann Albaníu í kvöld og tryggði sér sæti á mótinu.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner