
Neymar var líflegur en komst ekki á blað í 2-0 sigri Brasilíu gegn Serbíu í fyrstu umferð heimsmeistaramótsins í kvöld.
Neymar lék listir sínar við litla hrifningu Serbanna sem hikuðu ekki við að láta finna fyrir sér og spörkuðu framherjann knáa ítrekað niður.
Eftir þónokkur spörk var Neymar skipt af velli á 79. mínútu, með bólginn ökkla. Rodrigo Lasmar, liðslæknir Brasilíu, staðfesti eftir leik að Neymar sé líklegast tognaður. Ekki verður ljóst hversu alvarleg tognunin er fyrr en eftir rannsóknir næstu daga.
Brasilía er einnig með Sviss og Kamerún í riðli og er líklegt að Neymar missi af mikilvægri viðureign gegn Svisslendingum næsta mánudag.
Neymar náðist á mynd þar sem hann sat á varamannabekknum og grét.
Athugasemdir