Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 25. júlí 2022 13:30
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Jón Sveins: Viljum hafa fyrstu blaðsíðurnar eftirminnilegar
Jón Sveinsson, þjálfari Fram.
Jón Sveinsson, þjálfari Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Miðjumaðurinn Tiago.
Miðjumaðurinn Tiago.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eftir erfiða byrjun hefur stigasöfnunin gengið betur hjá Fram að undanförnu en liðið heimsækir ÍA í Bestu deildinni í kvöld. Fram er í áttunda sæti en Skagamenn í því neðsta.

„Við erum að safna einhverjum stigum en menn vilja meira og það er markmiðið að gera betur í seinni umferðinni," sagði Jón Sveinsson, þjálfari Fram, í útvarpsþættinum Fótbolti.net.

„Það hefur verið góður stígandi hjá okkur undanfarin ár, vissulega í deild fyrir neðan. Í dag erum við að eiga við erfiðari andstæðinga sem refsa þeir meira. En við héldum í okkar, við viljum halda í og búa til Fram einkennið sem var þegar ég var að spila. Við viljum spila fótbolta, halda boltanum þegar það á við, skapa færi og skora mörk."

„Við vorum að fá of mörg mörk á okkur og stigasöfnunin var ekki eins mikil og markaskorunin gaf tilefni til. En við höfum aðeins verið að þétta okkur og við þurftum aðeins tíma til að sjá hvernig þetta virkaði í sterkari deild og gegn þessum liðum. Við höfum aðeins tekið annan pól í hæðina og þétt okkur, við spilum aðeins öðruvísi en vill samt halda í sóknarboltann. Það erfiðasta í þessu er að skapa færi og skora mörk. Hitt er auðveldara, að leggjast í skotgrafirnar og verja markið sitt. Maður vill jafnvægi til að vinna leiki."

Voru ekki rólegir á markaðnum en gekk illa
Jón Sveinsson segist horfa í karakterseinkenni leikmanna og persónuleika þegar hann styrkir lið sitt.

„Við höfum vandað valið, við höfum misst góða leikmenn milli tímabila öll árin sem ég hef verið. Samt höfum við alltaf náð að bæta liðið og bæta leikinn. Það skiptir okkur miklu máli hvernig persónur leikmenn eru og hvernig þeir passa inn í okkar 'kúltúr'. Ég þekki Almarr (Ormarsson) mjög vel og vissi hvað hann hefur fram að færa, ég aflaði mér töluverðra upplýsinga um Brynjar (Gauta Guðjónsson) áður en við ákváðum að kýla á hann. Við viljum fá ákveðna karaktera en þú mátt ekki vera með einsleitt lið. Menn þurfa að hafa ákveðin einkenni," segir Jón Sveinsson.

Fram fékk gagnrýni fyrir mótið fyrir að styrkja sig ekki mikið.

„Í þessum leikmönnum vildum við fá leiðtoga og reynslu. Við vorum ekkert rólegir á markaðnum en okkur gekk illa á markaðnum. Við vorum mikið að horfa á menn hér heima en enduðum á að bæta við tveimur erlendum leikmönnum í vörnina og annar þeirra er ungur og efnilegur leikmaður sem við höfðum ekki tíma til að gefa tækifæri en Delph (Delphin Tshiembe) er hjá okkur og ég held að hann muni sanna sig sem mjög öflugur úrvalsdeildarleikmaður á Íslandi. Hann er með reynslu og er að stjórna í kringum sig. Það skiptir okkur máli."

Á mestan heiðurinn sjálfur
Guðmundur Magnússon hefur verið frábær fyrir Framara í sumar og er kominn með tíu mörk í deildinni.

„Hann á mestan heiðurinn sjálfur. Hann ákvað það sjálfur að vinna vel í sínum málum. Ég vissulega ræddi við hann eftir tímabilið í fyrra og útskýrði fyrir honum af hverju hann hefði verið meira í varamannshlutverki. Hann tók það til sín og mætti í fantaformi. Hann hefur sérstaklega bætt varnarleikinn og það hefur skilað sér. Vonandi heldur hann áfram á þessari braut," segir Jón Sveinsson.

Frammistaða Tiago hefur einnig komið mörgum á óvart en hann átti ekki gott tímabil með Grindavík í Lengjudeildinni í fyrra. Tiago lék með Fram 2018 og 2019.

„Á sínum tíma ákvað að hann reyna fyrir sér annars staðar en það gekk því miður ekki hjá honum. Honum langaði að komast á hærra level en að vera í 1. deildinni. Við tókum hann ekki þegar hann fór svo í Grindavík, hann var ekki alveg að henta okkur þá. En við vitum alveg hvernig leikmaður hann er."

„Ég var aldrei í nokkrum vafa um að hann gæti orðið mjög góður úrvalsdeildarleikmaður. Hann er þannig týpa að því hærra level sem hann fer á, því betri leikmaður verður hann. Það er mikil samkeppni hjá okkur og samkeppni á að gera góða leikmenn enn betri. að var kannski aðeins of 'kósí' fyrir hann í Grindavík en hjá okkur eru menn á kantinum sem eru tilbúnir að stökkva inn ef einhver er ekki að standa sig."

Ætla að safna fleiri stigum en í fyrri hlutanum
Var sest niður hjá Frömurum og sett nýtt markmið eftir ellefu umferðir?

„Við höfum bara verið að horfa í okkar markmið og við stefnum á að gera betur í seinni hálfleik en í þeim fyrri hvað stigasöfnun varðar. Þetta eru allt erfiðir og krefjandi leikir og við verðum að njóta þess að taka hvern og einn. Það er allt opið, það er fullt eftir og maður veit að það er of snemmt að byrja að fagna einhverju í lok júlí," segir Jón.

Jón var leikmaður Fram á sigursælum tíma hjá félaginu og er nú þjálfari á nýjum tímum þar sem félagið hefur fengið nýjan heimavöll í Úlfarsárdal.

„Maður er þakklátur og kátur með að fá að taka þátt í þessu. Við höfum mikið rætt það innan félagsins að þetta er tækifæri til að skrifa fyrstu blaðsíðurnar í sögu Fram á nýjum stað. Við viljum hafa þær eftirminnilegar. Að sama skapi var gaman að kveðja Safamýrina með þeim stæl sem við gerðum í fyrra. Ég held að það verði félaginu til framdráttar þegar til lengri tíma er litið, vera komnir á nýjan stað í nýtt hverfi og með frábæra aðstöðu. Við hlökkum til og vonumst til að fleyta okkur í efri hluta baráttunnar í Bestu deildinni. Það er makrmiðið og draumurinn," segir Jón Sveinsson.
Útvarpsþátturinn - Öflug Evrópuúrslit, Besta deildin og Lengjan
Athugasemdir
banner
banner
banner