Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   sun 26. mars 2023 07:40
Ívan Guðjón Baldursson
Nagelsmann sá árangursríkasti sem hefur verið rekinn
Mynd: EPA

Það kom mörgum á óvart þegar þýska stórveldið FC Bayern tilkynnti á dögunum að félagið hafi ákveðið að reka Julian Nagelsmann og ráða Thomas Tuchel inn í staðinn.


Nagelsmann er gríðarlega eftirsóttur þjálfari og hefur verið orðaður við Tottenham að undanförnu, en talið er að félög á borð við Real Madrid og PSG gætu verið áhugasöm um að fá hann í sínar raðir.

Nagelsmann er 35 ára gamall og starfaði sem aðalþjálfari hjá Hoffenheim og RB Leipzig við góðan orðstír áður en hann var ráðinn til FC Bayern. Hann entist þó rétt rúmlega eitt og hálft ár í starfi þar og vann þýsku deildina í leiðinni auk þess að hampa þýska Ofurbikarnum í tvígang.

Undir hans stjórn nældi Bayern sér í 2,38 stig á leik sem er afar hátt meðaltal og það hæsta í sögu rekinna þjálfara í fimm sterkustu deildum Evrópu. Til að finna þjálfara sem var rekinn eftir betri árangur í deildakeppni eftir 20 leiki eða meira verður að fara aftur til 2012 og alla leið til Serbíu þegar Aleksandar Stanojevic var rekinn frá Partizan til að skapa pláss fyrir Avram Grant. Stanojevic, sem vann 2,46 stig að meðaltali á leik við stjórnvölinn hjá Partizan, er þjálfari Konyaspor í tyrkneska boltanum í dag.

Til gamans má geta að ef 20 bestu deildir Evrópu eru skoðaðar þá á Real Madrid þrjá þjálfara á topp 10 lista yfir stigahæstu þjálfara sem hafa verið reknir úr starfi.

Rafael Benitez er í fimmta sæti, en hann fékk 2,24 stig á deildarleik áður en hann var rekinn 2016. Í sjötta sæti má finna Radomir Antic, sem var með 2,20 stig á leik þegar hann var látinn fara 1992, og í níunda sæti er Santiago Solari, hann var rekinn í mars 2019 með 2,13 stig á leik.


Athugasemdir
banner
banner
banner