Fer De Gea til Sádí Arabíu? - Ödegaard var nálægt því að ganga til liðs við Tottenham - Klopp hafnaði þýska landsliðinu
banner
   fös 26. maí 2023 20:58
Jóhann Þór Hólmgrímsson
Rúnar Már með stórleik í dýrkeyptu tapi - OB og Öster með sigra
watermark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark
Mynd:

Rúnar Már Sigurjónsson og félagar í FC Voluntari í Rúmeníu fara ekki í Sambandsdeildina eftir tap liðsins í dag.


Liðið mætti Craiova í umspili um sæti í Sambandsdeildinni í dag en Voluntari tapaði eftir vítaspyrnukeppni. Craiova komst í 3-0 en Rúnar átti stóran þátt í magnaðri endurkomu.

Voluntari minnkaði muninn á 78. mínútu. Rúnar skoraði úr vítaspyrnu sjö mínútum síðar og lagði upp jöfnunarmarkið þegar sjö mínútur voru komnar framyfir venjulegan leiktíma. Ekkert mark var skorað í framlengingunni og grípa þurfti til vítaspyrnukeppni.

Rúnar skoraði úr fyrstu spyrnunni en liðið tapaði að lokum 5-4 í vítaspyrnukeppninni.

OB enn í möguleika á Sambandsdeildinni

OB hélt vonum sínum á lofti að komast í Sambandsdeildina þegar liðið sigraði Horsens í Íslendingaslag í dönsku deildinni í dag. Leikurinn endaði 2-1 en Aron Elís Þrándarson kom inn á sem varamaður hjá OB og Aron Sigurðarson var í byrjunarliði Horsens.

Horsens er í fallsæti fyrir lokaumferðina og þarf nauðsynlega á sigri að halda gegn Íslendingaliði Lyngby sem berst einnig fyrir lífi sínu í deildinni.

OB er stigi á eftir Midtjylland í baráttunni um Sambandsdeildarsæti þegar liðið á einn leik eftir en Midtjylland á leik til góða.

Öster vann Landskrona 2-1 í 9. umferð sænsku deildarinnar en þetta var fyrsti sigurinn í síðustu fimm leikjum en liðið hafði byrjað tímabilið á fjórum sigrum.

Alex Þór Hauksson var í byrjunarliði Öster í dag. Srdjan Tufegdzic stýrir liðinu.


Athugasemdir
banner
banner
banner