Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   þri 26. nóvember 2013 13:30
Sigmundur Ó. Steinarsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Til hamingju Lars og Heimir - Stöðvum fíflalæti!
Sigmundur Ó. Steinarsson
Sigmundur Ó. Steinarsson
Lars Lagerback og Heimir Hallgrímsson.
Lars Lagerback og Heimir Hallgrímsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
 Samúel Örn Erlingsson ræðir við landsliðsmiðvörðinn Sævar Jónsson á Laugardalsvellinum á árum áður.
Samúel Örn Erlingsson ræðir við landsliðsmiðvörðinn Sævar Jónsson á Laugardalsvellinum á árum áður.
Mynd: Sigmundur Ó. Steinarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Knattspyrnusamband Ísland, KSÍ, gerði rétt þegar Svíinn Lars Lagerbäck var endurráðinn landsliðsþjálfari Íslands og Heimir Hallgrímsson var ráðinn þjálfari við hans hlið til 2015. Ef Ísland kemst í lokakeppni Evrópukeppni landsliða í Frakklandi 2016 verða Lars og Heimir vera saman með liðið þar.

Þetta er í annað skiptið sem Lars stjórnar landsliði með öðrum þjálfara. Hann hóf þjálfaraferil sinn með sænska landsliðið árið 2000 með Tommy Söderberg á La Manga á Spáni, þegar Atli Eðvaldsson stjórnaði íslenska landsliðinu í fyrsta skipti á sama stað. Þeir urðu að játa sig sigraða gegn Atla á Laugardalsvellinum skömmu síðar, 2:1.

Lars og Heimir þekkja flesta galdra knattspyrnunnar og vonandi halda þeir áfram að gera góða hluti með landsliðið.

Ekki er þó sjálfgefið að jafn góður árangur náist og í undankeppni HM í Brasilíu. Það fer allt eftir hverjir verða mótherjar Íslands. Það er ekki hægt að bóka fyrirfram að Íslendingar lendi í eins góðum riðli og síðast í undankeppni HM – þegar dregið verður í undankeppni EM. Þá þarf ekki annað en tveir til þrír lykilmenn meiðist, til að liðsmunstur landsliðsins verði annað.

Landsliðsþjálfarastarf er og verður alltaf erfitt starf – í harðri keppni. Menn vita aldrei hvað er handan við næsta horn.

Það er þó eitt sem KSÍ, Lars og Heimir verða að koma í veg fyrir. Það er að utanaðkomandi aðilar geti raskað ró leikmanna á ögurstundu.

Alltaf er gott ef hæfilegur léttleiki ráði ferðinni þegar út í alvöru lífsins er komið. En þegar leikið er um farseðil á stórmót – eins og t.d. á HM til Brasilíu, þá verður að koma í veg fyrir að of mikil pressa sé sett á landsliðsmenn, sem getur raskað ró þeirra í undirbúningi.

Afreksíþróttir eiga ekki að snúast upp í fíflaskap, eins og því miður gerðist í viðureignunum gegn Króatíu. Það var sorglegt að sjá hvernig „fréttamenn“ nýttu sér aðstæður til að trana sér fram með fíflaskap – fyrst á hóteli landsliðsins í Reykjavík fyrir fyrri leikinn gegn Króatíu á Laugardalsvellinum og síðan í Zagreb, sem uppákoman var ekki boðleg á sjálfum vellinum í HM-leik.

Knattspyrna snýst ekki um fíflaskap, heldur um yfirvegun og getu leikmanna á knattspyrnuvellinum, þar sem tuttugu og tveir leikmenn etja kappi. „Skemmtikraftar“ eiga ekki að fá tækifæri til að koma sér inn í viðkvæman lokaundirbúning.

Lærum af mistökunum
Það voru mistök að gefa skemmtikröftum tækifæri að vera með fíflaskap í kringum landsliðið í Króatíuviðureignunum. KSÍ og landsliðsþjálfarar Íslands verða að læra af þeim mistökum.

Íslendingar falla oft í þá gryfju að ofmetnast – fara fram úr sér og komast í ákveðna „stemningu“ þegar vel gengur á vellinum eða þá í söngvakeppnum. Þá er gaman og við erum svo góð – já, langbest! að sjálfsögðu.

Íslendingar hafa oft vaknað upp við vondan draum – eftir að boginn er spenntur of hátt Ég man alltaf eftir þegar samkeppni ljósvakamiðla náði hámarki – þegar nýjar sjónvarps- og útvarpsstöðvar komu fram í sviðsljósið fyrir Evrópuleik Íslands og Austur-Þýskalands á Laugardalsvellinum 1987. Keppnin var mikil að vera með menn í beinum útsendingum í hinum og þessum dagskráliðum.

„Það var eins og við værum stórstjörnur hjá Real Madrid – við vorum stöðugt í útvarpsviðtölum alla daga. Ágangur útvarpsstöðvanna hafði slæm áhrif á okkur og við náðum ekki einbeitingu. Það snérist allt um útvarpstöðvarnar – þær voru komnar í aðalhlutverkið,“ sagði Atli Eðvaldsson er hann rifjaði upp leikdag og dagana fyrir leikinn gegn Austur-Þjóðverjum.

8.758 áhorfendur greiddu aðgangseyri á leikinn og menn komu til að sjá Íslendinga leggja Austur-Þjóðverja að velli: ekkert annað! Sjá mörk og aftur mörk! Já, þeir sáu mörk, en vöknuðu upp við martröð, stórtap – 6:0!

Svipað var upp á teninginn fyrir Ólympíuleikana í Seoul 1988, en þá voru „Strákarnir okkar“ í öllum þáttum í útvarpi, léku í auglýsingum, heimsóttu verslanir, sungu inn á hljómplötu og lögðu Sovétmenn í Höllinni, 23:21. Já, þá var mikið grín og mikið gaman! – gullið á ÓL í sjónmáli. Aftur vöknuðu menn upp við vondan draum – strákarnir náðu sér aldrei á strik og léku langt undir getu – fóru á taugum, pressan var of mikil.

Þegar Evrópukeppnin í handknattleik var leikin í Sviss 2006 fóru „gamansamir“ sjónvarpsþáttarmenn á svæðið – og brutu umgengnisreglur Handknattleikssambands Evrópu, EHF, í keppnishöllum, þannig að þeir voru stöðvaðir í fíflalátum og vísað á dyr.
Fíflalæti eiga ekki samleið með afreksíþróttum.

Með knattspyrnukveðju,
Sigmundur Ó. Steinarsson
Athugasemdir
banner
banner
banner