Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mið 26. desember 2018 11:00
Fótbolti.net
Ingibjörg sendi landsliðsþjálfaranum tölvupóst fyrir EM
Ingibjörg Sigurðardóttir var gestur Heimavallarins á dögunum
Ingibjörg Sigurðardóttir var gestur Heimavallarins á dögunum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingibjörg spilaði á EM og upplifði drauminn sem margir höfðu sagt óraunhæfan
Ingibjörg spilaði á EM og upplifði drauminn sem margir höfðu sagt óraunhæfan
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðs- og atvinnukonan Ingibjörg Sigurðardóttir var gestur í nýjasta hlaðvarpsþætti Heimavallarins. Í þættinum átti hún ítarlegt spjall við þær Huldu Mýrdal og Mist Rúnarsdóttur og ýmislegt áhugavert bar á góma.

Ingibjörg er afar metnaðarfull og hefur frá barnasaldri sett sér háleit markmið í fótboltanum. Þegar hún sá að jafnaldra sín var farin að spila á Heimsmeistaramótinu í Kanada sumarið 2015 ákvað Ingibjörg að tveimur árum síðar skyldi hún fara með Íslandi á Evrópumótið í Hollandi.

„Ég talaði við ákveðið fólk og sagði þeim frá markmiðum mínum um að ég ætlaði á EM eftir tvö ár og svo í atvinnumennsku eftir þrjú ár,“ sagði Ingibjörg sem var í staðinn ráðlagt að setja sér raunsæ markmið. Ingibjörg skildi ekki viðbrögðin en ákvað þá að vera ekkert að deila markmiðunum með hverjum sem er heldur halda áfram að æfa vel og elta drauminn.

Á tímabili fannst Ingibjörgu málin ekki líta nógu vel út og var farin að íhuga plan B, sem var að fara út í háskóla í Bandaríkjunum. Það kviknaði þó von þegar hún var valin í æfingahóp landsliðsins í lok árs 2016.

„Mér fannst ganga ágætlega þar og ég fór þarna á mínar fyrstu æfingar með Freysa sem þjálfara.“

Hin metnaðarfulla Ingibjörg var þó ekki sátt þegar hún fékk ekki kallið í næsta landsliðsverkefni.

„Ég vissi að það yrðu æfingar aftur í janúar en var ekki valin á þær. Ég hugsaði hvað væri eiginlega að honum (Frey landsliðsþjálfara) en ákvað að kyngja þessu og einbeitti mér að því að æfa meira og betur.“

Þegar Ingibjörg var svo ekki valin í æfingaferðina til Algarve stuttu fyrir EM þá ákvað hún að senda landsliðsþjálfaranum línu til að fá upplýsingar um hvað hún þyrfti að gera til að eiga möguleika með landsliðinu.

„Þegar ég var ekki valin á Algarve hugsaði ég, ég ætla bara að senda honum póst. Mér er alveg sama þó hann viti ekkert hver ég er eða muni ekki eftir mér. Ég sendi honum bara póst til að spyrja hann hvað ég geti gert betur eða hvað ég þurfi að bæta til þess að eiga meiri séns á að komast í landsliðið og vera valin í næsta hóp.“

Freyr Alexandersson svaraði póstinum og benti Ingibjörgu á ákveðin atriði sem honum fannst hún þurfa að bæta. Hún lagði í kjölfarið áherslu á að vinna í þeim atriðum og var svo valin í æfingahóp nokkrum vikum síðar. Aðspurð segist hún ekki viss hvort tölvupósturinn hafi haft áhrif á landsliðsvalið.

„Ég veit það ekki. Kannski. En ég hugsa að ef ég væri þjálfari þá þætti mér gott að vita ef leikmaður er áhugasamur um að bæta sig og vita hvað hann getur gert betur.“

„Ég er náttúrulega vön þessu. Talaði mikið við þjálfarana mína í Breiðablik til að fá upplýsingar um hvað ég geti gert betur. Þarna voru nokkrir mánuðir í EM og ég er ekkert að fara þangað ef ég reyni ekki einu sinni að spyrja. Ef ég spyr hann og reyni svo að vinna í þeim þáttum sem hann nefnir þá veit ég allavegana að ég reyndi mitt besta. Ég gerði allt sem ég gat og ef ég er ekki nógu góð þá verð ég bara að reyna aftur. Þetta var alveg svolítið svona „fuck it móment“.

„Ég var pirruð yfir að hafa ekki verið valin í byrjun en ekki misskilja mig, ég bar alltaf mikla virðingu fyrir valinu. Þetta var meira pirringur út í sjálfa mig. Hvað er ég að gera vitlaust og af hverju er ég ekki að ná þessu?“
bætti Ingibjörg við.

Ingibjörg var í kjölfarið valin í síðustu undirbúningsverkefni fyrir EM og í næstsíðasta æfingaleik fyrir mót fékk hún óvænt tækifæri í byrjunarliði Íslands þegar að Anna Björk Kristjánsdóttir tognaði degi fyrir leik. Frammistaða Ingibjargar var það góð að hún hélt sæti sínu í liðinu í lokaundirbúningsleik fyrir Evrópumótið og áfram inná EM. Síðan þá hefur hún stimplað sig rækilega inn í byrjunarlið Íslands.

Hvað varðar hitt „óraunhæfa“ markmiðið um að komast í atvinnumennsku þá náðist það líka því að haustið 2017 gekk hún til liðs við sænska úrvalsdeildarliðið Djurgarden þar sem hún spilar við góðan orðstír í dag.

Smelltu hér til að hlusta á allt viðtalið við þessa mögnuðu íþróttakonu
Athugasemdir
banner
banner