Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   lau 27. ágúst 2022 12:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Álitsgjafar rýna í úrslitaleikinn - „Alveg lygilega sjaldgæft"
Valur vann fyrsta leik liðanna í sumar.
Valur vann fyrsta leik liðanna í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik er ríkjandi bikarmeistari.
Breiðablik er ríkjandi bikarmeistari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helena Ólafsdóttir.
Helena Ólafsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingunn Haraldsdóttir.
Ingunn Haraldsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhann Kristinn Gunnarsson hér til vinstri.
Jóhann Kristinn Gunnarsson hér til vinstri.
Mynd: Hafþór Hreiðarsson
Óskar Smári Haraldsson.
Óskar Smári Haraldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Klukkan 16:00 í dag verður flautað til leiks í einum stærsta leik sumarsins hér á Íslandi. Breiðablik og Valur eigast við í úrslitaleiknum í Mjólkurbikar kvenna.

Þetta eru tvö bestu liðin á landinu þessa stundina; Valur er á toppi Bestu deildarinnar og Breiðablik er í öðru sæti.

Við fengum nokkra álitsgjafa til að spá í leikinn sem er framundan. Lagðar voru þrjár spurningar fyrir þær.

Hvort liðið er sigurstranglegra?

Hvernig mun þessi leikur spilast?

Hvernig fer hann?

Hér fyrir neðan má sjá svör álitsgjafana.

Helena Ólafsdóttir, fyrrum landsliðsþjálfari
Hvort liðið er sigurstranglegra? Það er svolítið erfitt að spá í leikinn, fyrirfram myndi ég halda að Valur væri sigurstranglegra liðið. Þær eru með eldri og reyndari leikmenn. Samt sem áður með leikmenn sem ekki hafa spilað svona stóran leik, eins og bikarúrslitaleikur er, áður. Pressan er jafn mikil á bæði lið en held að Valur muni fara með sigur. Ég byggi spá mína á því að Blikar hafa misst meira á seinni hlutanum og eru með mjög unga sóknarlínu, sem gæti samt sem áður blómstrað í leik sem þessum.

Hvernig mun þessi leikur spilast? Ég held að þessi leikur komi til með að fara rólega af stað enda spennustigið hátt og bæði lið munu fara varlega inn í leikinn. Fari svo að Blikar skori á undan eru þær til alls líklegar. Valskonur eru samt sem áður gríðarlega sterkar í föstum leikatriðum og ég held að það muni vega þungt í þessum leik.

Mín spá er 2-1 fyrir Val. Cyera og Arna Sif sjá um markaskorun Valskvenna og Birta Georgs sér um að skora fyrir Blika.

Ingunn Haraldsdóttir, leikmaður KR
Hvort liðið er sigurstranglegra? Valur kemur klárlega inn í þennan leik sem sigurstranglegra liðið. Þær eru á góðri siglingu, nýbúnar að komast áfram í Meistaradeildinni og með blússandi sjálfstraust eftir því. Stór skörð hafa verið höggvin í lið Breiðabliks síðustu vikur og fréttir af meiðslum Öglu Maríu eru ekki til að bæta ástandið.

Hvernig mun leikurinn spilast? Það sem er svo fallegt við bikarkeppnina er að allt getur gerst. Þrátt fyrir að Valur komi að mínu mati inn sem sigurstranglegra liðið í þetta einvígi, þá verður þetta hörkuslagur tveggja vel spilandi knattspyrnuliða. Bæði lið eru að koma úr stífu leikjaprógrammi með löngum ferðalögum og ég held að fyrsta hálftímann stígi þau varlega til jarðar. Vonandi fyrir okkur áhorfendur fáum við fyrsta markið nokkuð snemma og alvöru skemmtun í kjölfarið.

Hvernig fer hann? Áhorfendamet verður slegið og það verður sól og blíða í Laugardalnum. Valskonur munu glíma við Meistardeildarþynnku fyrst um sinn og Vigdís Lilja smellir blautri tusku í andlitið á þeim og skorar rétt fyrir hálfleik. Arna Sif skorar sitt reglulega skallamark og Ásdís landsliðs Karen klárar svo leikinn fyrir Val í blálokin af uppbótartíma, 2-1 fyrir Val.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Völsungs
Hvort liðið er sigurstranglegra? Umræðan um leikmenn sem taka ekki þátt í leiknum virðist vera að teikna Breiðablik upp sem einhverja underdogs í þessum stórleik tveggja stærstu liðanna á Íslandi í dag. Það getur alveg hjálpað til í undirbúningnum hjá Blikum en þegar allt kemur til alls þá er þetta bara úrslitaleikur og titill í boði.
Það sem hjálpar Val aftur á móti gæti verið að það er allt of langt síðan þær voru í þessum stærsta leik sumarsins hverju sinni. Þær eru í þeirri stöðu að geta unnið tvöfalt sem er alveg lygilega sjaldgæft og þ.a.l. magnað afrek. Leikmenn liðanna eru samt örugglega ekki að velta sér mikið upp úr þessum staðreyndum og tölfræði félaganna tveggja yfirhöfuð. Þær koma út í þennan leik með öll vopn á lofti og þetta verður mikil orkusprengja.

Það má eðlilega búast við mikilli baráttu strax í byrjun og þessi sterku varnarlið vilja mögulega ekki að leikurinn opnist upp á gátt í fyrri hálfleik. Þegar mikið er undir og allt eða ekkert leikur í gangi eru alltaf líkur á mistökum og fari svo að annað liðið nái að nýta sér slíkt snemma í leiknum gætum við alveg séð fram á markaleik (sem er auðvitað það sem við, áhorfendur viljum). Liðin hafa mikla markaskorara innan sinna raða. Það verður bæði athyglisvert að sjá baráttu þjálfara og leikmanna í opnum leik en ekki síður í föstum leikatriðum. Það er ekkert grín að fá á sig horn gegn þessum öflugu sleggjum sem bæði lið hafa inn í boxinu við slíkar aðstæður.

Við fáum mark snemma í leiknum og hann opnast sem eykur bara stemninguna á vellinum (þar sem sett verður glæsilegt áhorfendamet) og liðin enda á að þurfa að sækja. Cyera gerir tvö mörk og Arna Sif sigurmark Vals á meðan Natasha og Helena Ósk skora fyrir Breiðablik. Segjum að sigurmarkið komi undir lokin eftir að fjörugur og æsispennandi leikurinn hefur staðið í 2-2 mest allan seinni hálfleikinn!

Óskar Smári Haraldsson, þjálfari Fram
Fyrirfram að þá tel ég Valsliðið vera sigurstranglegra í leiknum. Reynslan í liði Vals er meiri, og telur hún oft mikið þegar komið er í bikarúrslitaleik. Þær unnu fyrri viðureign þessara liða í sumar 0-1 í deildinni og eru að mínu mati sigurstranglegri komandi inn í þennan leik.

Ég tel að þetta verði frekar lokaður leikur. Mikil stöðubarátta en það verða tvö mörk skoruð þrátt fyrir það í fyrri hálfleik. Valur mun koma inn í þennan leik svipað og gegn Stjörnunni - fara hátt upp með línuna og pressa Blikana hátt. Það mun skila sér því Valskonur komast yfir snemma með marki frá Cyeru. Hún hefur verið iðinn við kolann í sumar og virkar í betra formi en í fyrra. Fljótlega eftir það munu Blikastúlkur leysa fyrstu pressu og komast í gegn, þar sem Birta Georgsdóttir mun sleppa inn fyrir og skora og jafna leikinn, 1-1. Í seinni hálfleik mun Breiðablik vera meira með boltann en Valskonur skipulagðar til baka og munum við sjá fá færi. Það verður undir lokin þar sem Valur fær horn og úr því mun Mist Edvarsdóttir skora með skalla.

Hungrið í Valsliðinu er gríðarlega mikið. Það sást í undanúrslitaleiknum gegn Stjörnunni hvað þessi bikar skiptir þær miklu máli, enda komin tíu ár frá því þær urðu bikarmeistarar.

Sigríður Dröfn Auðunsdóttir, fréttaritari
Ég hef það á tilfinningunni að það sé komið að Valskonum að taka þetta. Það er langt síðan Valskonur voru í bikarúrslitum og þær eru líklega orðnar mjög hungraðar í bikarmeistaratitil, þær kunna að vinna titla og ég held það sé fátt sem getur stoppað þær. Þá eru Blikar búnar að missa mikið af lykilmönnum upp á síðkastið auk þess sem Agla María verður ekki með sem getur verið ansi dýrkeypt.

Ég held til að byrja með verði leikurinn frekar rólegur og það verði þolinmæðisverk að ná inn marki. Ég ætla að giska á að Cyera Hintzen sem er búin að spila vel upp á síðkastið skori fyrsta mark leiksins snemma í seinni hálfleik, Arna Sif komi Val síðan í 2-0 með skalla eftir hornspyrnu frá Ásdísi Karen.

Valur vinnur Breiðablik, 2-0 og hampar bikarnum á Laugardalsvelli.
Athugasemdir
banner
banner
banner