Myndband til af skemmdarvargnum
Græni liturinn á brettunum í Víkinni. Með fréttinni má sjá neðst nokkrar myndir í viðbót af aðstöðunni sem áhorfendur hafa í kvöld.
Þegar Fótbolti.net leit við á Víkingsvelli í hádeginu voru fulltrúar Víkinga þar á svæðinu í undirbúningi fyrir leikinn og meta tjónið sem varð í nótt þegar skemmdarvargur málaði vörubrettin sem mynda aukastúkurnar græn. Hann náðist á myndbandsupptökur.
Vörubrettin hafði félagið fengið lánuð en rauði liturinn er nauðsynlegur í ákveðnum vöruflutningum, meðal annars fyrir Costco. Nú þegar þau hafa verið máluð græn eru þau bretti metin ónýt og tjón eigandans nokkuð mikið.
Á bilinu 250-300 bretti voru skemmd í nótt og kostnaðurinn við hvert bretti er um 5000 krónur. Víkingar sem við ræddum við í dag meta tjónið því upp á 1,5 milljón.
Á myndbandsupptökum í Víkinni mátti sjá að sá sem málaði brettin var að uppúr klukkan tvö í nótt, með málningarrúllu á löngu priki. Víkingar ætla að kæra brotið til KSÍ og krefjast þess að Breiðablik greiði kostnaðinn.
Eigandi brettanna var væntanlegur eftir hádegið og í kjölfarið átti að taka ákvörðun um hvort kæra yrði einnig lögð fram hjá lögreglu. Þegar við yfirgáfum svæðið var vinna hafin við að fjarlægja grænu brettin.
Leikurinn hefst klukkan 18:30 í kvöld og fylgst verður vel með öllu sem gerist á Fótbolta.net.
Athugasemdir