Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fim 28. júní 2018 12:37
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Gáttaðir um borð í flugvél - Maður vill ekki trúa þessu
Elvar Geir Magnússon
Elvar Geir Magnússon
Icelandair
Heimkoman. Raggi Sig eftir lendingu í Keflavík í gær.
Heimkoman. Raggi Sig eftir lendingu í Keflavík í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á æfingu í Rússlandi.
Á æfingu í Rússlandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðið stendur á tímamótum og óvissan er talsverð.

Orð Ragnars Sigurðssonar sem hann setti á Instagram í gær, í þann mund sem vél Icelandair frá Kalíníngrad var að búa sig undir heimferð með landsliðið, starfslið og fjölmiðlamenn innanborðs, komu nær öllum í opna skjöldu.

Ég og Tómas Þór vorum gáttaðir þegar Magnús Már rétti okkur símann sinn, á sama tíma og farið var yfir öryggisleiðbeiningarnar fyrir flugið. Þar blasti þessi tilkynning Ragnars við. Leikmenn um borð voru einnig gáttaðir og heyrði ég að Ragnar hafi verið spurður af liðsfélögum sínum hvort hann væri virkilega hættur með landsliðinu. Svarið var já.

Kvöldið áður hafði Ragnar beðist undan viðtölum strax eftir leikinn gegn Króatíu. Fjölmiðlamenn virtu þá ósk hans án þess að hafa grunað að þessi ástæða lægi að baki.

Þegar fjölmiðlamenn fljúga með landsliðinu eru leikmenn fremst í vélinni (raðað eftir fjölda landsleikja), starfsliðið í henni miðri og fjölmiðlamenn aftast. Samskipti leikmanna og fjölmiðla eru nær engin enda ekki um neinn fjölmiðlaviðburð að ræða. Enginn af þeim starfsmönnum KSÍ sem maður ræddi við í fluginu í gær vissi að þessi tilkynning væri væntanleg frá Ragga.

Miðað við að Raggi vildi ekki viðtöl eftir leikinn gegn Króatíu er þessi tilkynning eitthvað sem hann hefur verið að hugsa um í einhvern tíma. Spurningarnar sem veltast upp í huga okkar eru svo mun fleiri en svörin.

Að missa báða hluta af besta miðvarðapari sem Ísland hefur átt er erfitt að kyngja. Raggi er á frábærum aldri sem miðvörður, 32 ára. Hann verður yngri en Kári er í dag þegar næsta stórmót fer fram, EM allstaðar. Maður sér engin merki þess á vellinum að hann sé eitthvað að gefa eftir og flestir bjuggust við því að hann og Sverrir Ingi yrðu okkar hjarta í varnarleiknum næstu árin.

Hver er ástæðan?
Maður bíður eftir því að Ragnar gefi upp ástæðuna fyrir því að hann ákveður núna að leggja landsliðsskóna á hilluna.

Er hann saddur? Hann er búinn að vera lykilmaður hjá íslenska landsliðinu í mörg ár og spilað stórkostlegt hlutverk í árangri liðsins. Hetjuleg framganga í ævintýrinu á EM, hjálpar liðinu að komast á HM og spilar svo á stærsta sviðinu. Markmiðalistinn gæti verið tæmdur. Í færslu sinni segir hann að nú sé tímapunktur fyrir yngri menn að taka við keflinu.

Vill hann lengja atvinnumannaferilinn? Álagið í boltanum er mikið og ferill fótboltamanna ekki langur. Það er ekki ólíklegt að hann telji sig geta kreist út fleiri ár með því að minnka álagið.

Þetta eru tvær mögulegar ástæður sem fyrst koma upp í hugann.

Er hægt að fá Ragga til að hætta við?
(Staðfest) sviginn er ekki kominn á að Raggi leggi landsliðsskóna á hilluna. Enda er ekki sérstaklega mikill áhugi hjá okkur á Fótbolta.net að setja þann sviga.

Vonandi er enn möguleiki á að Raggi endurskoði ákvörðun sína. Það er ekki pláss fyrir sumarfrí hjá KSÍ í þessari stöðu og fyrsta verkefni hjá nýjum landsliðsþjálfara gæti verið að reyna að sannfæra Ragga um að halda áfram í bláu treyjunni.

Frábær varnarmaður og einnig stórskemmtilegur karakter. Það yrði rosalegur missir af honum innan sem utan vallar.

Óvissa í varnarlínunni
Margt bendir til þess að miðverðirnir mögnuðu séu báðir að hverfa á braut frá landsliðinu; Raggi og Kári. Birkir Már hægri bakvörður er kominn heim og enginn augljós arftaki er sjáanlegur í þá stöðu. Birkir getur haldið áfram í Pepsi-deildinni og átt fast sæti í landsliðinu enda einn okkar besti maður á HM, stærsta sviði heimsins.

En hvernig er næsta miðvarðapar Íslands ef Raggi og Kári eru báðir hættir? Í því pari er bara eitt sæti laust. Sverrir Ingi á hitt. Ef ég væri með veðbanka gæfi ég lægstan stuðul á Hörð Björgvin við hans hlið (og Ara þá inn í vinstri bakvörðinn) og Hólmar þar á eftir.

Áhugaverð kaflaskil eru framundan hjá Íslandi. Umræðan um framtíð Heimis Hallgrímssonar hefur verið mikil. Um leið og ég (eins og leikmenn og íslenska þjóðin) vill ekki missa Heimi þá held ég með honum og vona líka að hann fái nýjan safaríkan og spennandi kafla á sínum þjálfaraferli. Hann á það skilið.

Vonandi eru allar þær fabúleringar sem áttu sér stað aftast í flugvélinni í gær óþarfar og Raggi spilar í hjarta varnarinnar gegn Sviss í Þjóðadeildinni í september. Ef ekki: Takk Raggi fyrir ómetanlegt framlag!
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner