Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mán 28. ágúst 2023 21:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Cecilía missir af stórum hluta tímabilsins - „Sagði við Gló að það væri eitthvað mikið að"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsmarkvörðurinn Cecilía Rán Rúnarsdóttir varð fyrir því óláni í liðinni viku að meiðast alvarlega á hné þegar hún var á æfingu með félagsliði sínu Bayern Munchen. Hún spilar ekki fótboltaleik fyrr en á næsta ári en áætlaður endurkomutími er um hálft ár.

Cecilía ræddi við Fótbolta.net og fór yfir meiðslin. Vissi hún strax að um alvarleg meiðsli væri að ræða?

„Ég var í reit og teygði mig í boltann með vinstri löppinni, þegar ég næ boltanum teygist svo skringilega á hinum fætinum og hnéskelin fór í og úr lið," sagði Cecilía.

„já, ég fann það alveg strax og sagði það minnir mig við Gló (Glódísi Perlu) þegar ég lá niðri að það væri eitthvað mikið að. Ég heyrði háan smell og fékk tilfinningu um að eitthvað hefði slitnað inn í hnénu, þá hafði hnéskelin farið úr lið og við það hafði MPFL liðbandið slitnað."

Hvað tekur við?

„Ég fer í aðgerð 4 september því læknarnir þurfa að bíða eftir að bólgan hjaðni aðeins, þeir tala um að endurkomutíminn sé í kringum sex mánuði."

Var búið að ræða við þig um hlutverk á komandi tímabili? Eitthvað rætt um lán?

„Það var ekki í stöðunni að fara á lán og þetta var bara samkeppni milli mín og hinna markvarðanna þannig það er mjög erfitt að segja til hvernig þetta hefði verið fyrri hluta mótsins."

„En núna er bara fullur fókus að koma sem sterkust út úr endurhæfingunni og vera eins tilbúin og ég get orðið fyrir seinni hluta mótsins,"
sagði Cecilía að lokum.

Cecilía er tvítug og hefur verið á mála hjá Bayern í eitt og hálft ár. Hún á að baki ellefu A-landsleiki.
Athugasemdir
banner
banner