Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mið 28. september 2022 12:24
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Háværar sögur um að Vanda hafi rætt við Heimi í sumar
Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar og Jói Kalli.
Arnar og Jói Kalli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir Hallgrímsson var fyrr í þessum mánuði ráðinn landsliðsþjálfari Jamaíku.

Núna eru sögusagnir þess efnis að Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, hafi rætt við Heimi um að taka aftur við íslenska landsliðinu.

Fram kom í hlaðvarpinu Dr Football í dag að Vanda hefði rætt við Heimi. Þáttastjórnandinn Hjörvar Hafliðason gekk svo langt að staðfesta það.

Arnar Þór Viðarsson hefur stýrt landsliðinu frá því í ársbyrjun í fyrra og hefur árangurinn ekki verið sérstakur. Þó skal tekið fram að það hafa komið upp mikið af erfiðum málum á tíma hans í landsliðinu og mikið rót hefur verið á liðinu. Vanda hefur lýst opinberlega yfir stuðningi við þjálfarann, en Arnar er með samning út undankeppni EM á næsta ári.

Í hlaðvarpinu Þungavigtin var gengið enn lengra og þar sagt að Vanda hefði náð samkomulagi við Heimi um að taka við. Það hefði gerst í byrjun júní á þessu ári. Svo hefði hún hringt og hætt við þegar Ísland gerði þrjú jafntefli í júní.

Heimir er vinsælasti þjálfari Íslands eftir að hafa stýrt landsliðinu frá 2011 til 2018. Undir hans stjórn fór liðið á tvö stórmót og mikill meðbyr í kringum liðið. Núna er hann ekki lengur möguleiki þar sem hann var að taka að sér stórt verkefni á Jamaíku.

Ekki náðist í Vöndu við vinnslu þessarar fréttar, en undirritaður er búinn að senda fyrirspurn á hana.

Jói Kalli sagður hafa komið vel inn
Fyrr á þessu ári var Jóhannes Karl Guðjónsson ráðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari. Hann tók við starfinu af Eiði Smára Guðjohnsen.

Það kom fram í útsendingunni á Viaplay í gær að orð færi af því að Jói Kalli væri að koma mjög vel inn í þetta. Rúrik Gíslason talaði um það. Einnig var komið inn á það í Dr Football í dag.

„Það fer mjög gott orð af Jóa Kalla í landsliðinu. Allt skipulag og umgjörð í kringum leikdag sé mjög faglegt núna. Menn hrósa honum," sagði Hjörvar í hlaðvarpi sínu.

Arnar og Jói Kalli hafa stýrt landsliðinu saman núna í 9-10 mánuði. Þeir munu eflaust stýra liðinu í undankeppni EM á næsta ári.
Athugasemdir
banner
banner
banner