Pétur Orri Gíslason skrifar:
Jæja nú þegar þremur umferðum er lokið í ensku úrvalsdeildinni og fyrsta landsleikjahléið komið að þá er ágætt að taka smá vörutalningu!
Man City: City fer frábærlega af stað undir stjórn Pep Guardiola og hefur unnið fyrstu þrjá leikina. Margir leikmenn hafa komið inn og viðbúið væri að það tæki þá smá tíma að komast inn í hlutina og fyrir nýjan þjálfara að leggja mark sitt á liðið. Þrátt fyrir allt þá fara þeir glimrandi vel af stað. City verða klárlega í titilbaráttunni. Þeir eru tilbúnir og munu líklega ekki gera meira í glugganum.
Chelsea: Fengu nýjan stjóra sem er strax búinn að fá Eden Hazard aftur í gott skap og gefa honum meira frelsi inni á vellinum. Chelsea gerði svo frábær kaup í Kante sem er eins og ryksuga þarna á miðjunni og verndar gamla Terry og hinn brottgenga Cahill vel þarna aftast. Chelsea ætti samt að þurfa að kaupa nýjan varnarmann. Mitch Batsuyi er svo búinn að stimpla sig inn strax og ljóst að hann mun veita Diego Costa gott aðhald þarna.
Man Utd: Nýr stjóri einnig hjá þeim. Mourinho the Special One er mættur í leikhús draumanna. Fjórir leikmenn keyptir inn sem eru allir að stimpla sig inn strax. Bailly er klettur í vörninni og virðist hafa verið hinn mesti happafengur. Paul Pogba er dýrasti leikmaður sögunnar en allir sjá strax gæðin sem hann kemur með inn. Mkhtaryan er sá af nýju leikmönnunum sem hefur minnst stimplað sig inn en kom inn gegn Hull og sýndi flotta takta. Zlatan Ibrahimovic hefur svo komið inn með stormi og byrjað að raða mörkunum og sýnir að aldur er bara tala í ökuskírteininu. United fer vel af stað og á meira inni. Markmiðið hjá Mourinho og leikmönnunum er skýrt: Titilbarátta og ekkert annað. Ekki verða frekari leikmannakaup hjá United í þessum glugga.
Everton: Byrja tímabilið gríðarlega vel og ljóst að Koeman er hörku stjóri fyrir ensku deildina. Þeir gerðu gott með að selja John Stones á 50 milljónir og kaupa Ashley Williams í staðinn fyrir litlar 11 milljónir. Everton mun örugglega bæta við sig 2-3 leikmönnum fyrir lok gluggans. Gríðarlega jákvætt fyrir þá líka að Lukaku er búinn að draga til baka sölubeiðnina og ætlar að vera áfram. Everton mun bókað vera í baráttu um Evrópusæti í vetur.
Hull City: Eru búnir að vera í ruglinu fyrir tímabilið. Steve Bruce hætti vegna þess að engir leikmenn höfðu verið keyptir og hópurinn með þeim minni ef ekki sá minnsti sem sést hefur frá stofnun úrvalsdeildarinnar. Mike Phelan hefur tekið við til bráðabirgðar með einungis 13 aðalliðsleikmenn heila en skilað þeim 6 stigum af 9 mögulegum. Hull verða klárlega að styrkja sig fyrir lok gluggans til að auka breiddina. Hvort Phelan verður endanlega ráðinn mun koma í ljós en þrátt fyrir góða byrjun þá munu Hull ekki endast þetta og þeir munu fara í fallbaráttuna.
Middlesbrough: Þeir nýliðar sem var spáð bestu gengi og þeir hafa farið vel af stað og náð 5 stigum í upphafi. Voru klóir á leikmanamarkaðnum en munu samt líklega bæta við sig fyrir lok gluggans. Gætu stefnt að vera á lynga sjónum, hvorki í baráttu um Evrópusæti né í fallbaráttu.
Tottenham: Fara hljóðlega af stað líkt og síðustu ár og Kane er samur við sig með að skora ekki í ágúst. Því miður fyrir Tottenham sem áttu frábært tímabil síðasta vetur þá eru einfaldlega City, Chelsea og United búin að ná aftur sínum vopnum og nú þegar komin með fjögurra stiga forskot eftir þrjá leiki. Tottenham munu samt berjast um Meistaradeildarsæti. Hópurinn þeirra er tilbúinn og þeir munu ekki versla meira.
Arsenal: Ekki ákjósanlegasta byrjun í heimi á tímabilinu fyrir Arsenal. Leikmenn ekki komnir í nógu gott stand líkt og sýndi sig þegar Liverpool heimsóttu þá og tóku stigin þrjú. Þeir hafa algjörlega fallið á prófinu þegar kemur að leikmannakaupum og val á fyrirliða. En enn og aftur velur Wenger fyrirliða sem er meira og minna meiddur og fjarri vellinum. Tveir leikmenn eru að bætast við núna seint en það mun taka sinn tima fyrir þá að komast inn í þetta. Arsenal eru of seinir úr rásblokkunum og ég óttast að nú sé kominn tíminn þar sem þeir missa af Meistaradeildinni og þetta verði síðasta tímabil Arsene Wenger.
Leicester: Misstu fyrir tímabilið manninn sem umturnaði öllu hjá þeim á síðasta tímabili þegar Kante kom til þeirra í stað reynsluboltans Cambiasso. Leicester unnu magnað afrek á síðasta tímabili með því að verða meistarar. Þeir hafa dregist í þægilegann riðil í Meistaradeildinni og ég tel að sú keppni muni trufla þá í deildinni. Leicester munu enda um miðja deild. Einn til tveir leikmenn gætu bæst við fyrir lok gluggans til að auka breiddina.
WBA: Undir stjórn Pulis þá spila þeir hundleiðinlegann fótbolta sem er áskrift á að halda sætinu sínu í deildinni. Pulis mun reyna að kaupa einn til tvo sóknarmenn fyrir lok gluggans því þeim sárlega vantar grimmann markaskorara.
Liverpool: Gerðu virkilega vel með að ná Jurgen Klopp til sín en samt eru þeir ekkert að standa sig mikið betur en undir stjórn Rodgers. Gefum honum samt tíma. Það er ekki búið að klára ákveðið mál þar á bæ og það er vinstri bakvarðarstaðan. Alberto Moreno er algjört aðhlátursefni og óskiljanlegt að það var ekki búið að kaupa fyrir tímabilið traustan vinstri bakvörð. Klopp varði Moreno en tók hann samt út úr liðinu og setti James Milner í vinstri bakvarðarstöðuna. Skrítin ráðstöfun en sjáum hvernig það endar. Eining er ótrúlegt að hugsa til þess að Liverpool keyptu frekar Ragnar Klavan heldur en Ragnar Sigurðsson og þarna spilar held ég inn í að Raggi Sig er ekki með nógu góðan umboðsmann. Liverpool mun berjast um Evrópusæti og gæti bætt við sig einum til tveimur leikmönnum fyrir lok gluggans.
West Ham: Virðast ekki jafn sterkir og í fyrra og fara frekar illa af stað. Tapa fyrir Chelsea og tapa sannfærandi gegn Manchester City. Í fyrra voru þeir inn í þessum stærri leikjum og voru að stríða andstæðingunum. Miklar vonir voru bundnar við West Ham og þeirra stuðningsmenn horfðu á komandi tímabil með björtum augum og væntingum. Komnir á flunku nýjann leikvang sem tekur 60.000 manns í sæti. En þeir féllu annað árið í röð út í undanspili Europa league og því evropuævintýri þeirra lokið þetta árið. Þeir munu líklega bæta við sig einum til tveimur leikmönnum fyrir lok gluggans.
Burnley: Eru að koma upp í þriðja skiptið á síðastliðnum árum og alltaf er það sama sagan. Þeir kaupa ekki NEITT!!! Jóhann Berg er kominn þangað og Steven Defour rétt svo nýlega en annars þurfa þeir að styrkja sig mun meira til að eiga möguleika á að halda sæti sínu í deildinni. Eru með enskann stjóra og spila 4-4-2 af gamla skólanum og gerðu vel að vinna Liverpool en annars er það lóðrétt aftur niður fyrir þá. Munu ekki kaupa neinn til viðbótar áður en glugginn lokar.
Swansea: Hafa gert upp á bak eftir eigandaskiptin og selt frá sér máttarstólpa og frábæra leikmenn án þess að fá eitthvað sérstakt í staðinn. Ég hef miklar áhyggjur af þeim og spái þeim í fallbaráttu. Gætu bætt við sig varnarmanni fyrir lok gluggans.
Southampton: Hafa komist upp með síðustu ár að selja lykilmenn og keypt ódýra óslípaða demanta í staðinn. Pochettino og Koeman hafa gert frábæra hluti þarna en núna er kominn nýr stjóri að nafni Claude Puel og þeir hafa enn og aftur selt lykilmenn frá sér. Southampton verða í tómu basli í vetur og munu enda í neðri hlutanum. Bæta mögulega við sig varnarmanni fyrir lok gluggans.
Sunderland: Eru Sunderland og eina markmið þeirra ár eftir ár er bara að bjarga sæti sínu. Það mun klikka á endanum og það gæti hæglega gerst núna í vetur. Þeir munu líklega bæta við sig tveimur leikmönnum fyrir lok gluggans.
Crystal Palace: Eru á hraðri niðurleið og Alan Pardew er alveg búinn að missa taumana þarna og líklegast farsælegast fyrir stjórn Palace að reka manninn og ráða inn nýjan þjálfara. Fallbarátta fyrir Crystal Palace sem munu reyna að bæta inn sóknarmanni fyrir lok gluggans.
Watford: Voru frábærir síðasta vetur undir stjórn Quique Sanchez Flores sem er frábær stjóri og fór heim til Spánar til að þjálfa Espanyol. Walter Mazzari er nýjasti stjóri Watford og er það hrikalega sérstök ráðning því Mazzari vill að lið sín spili 3-5-2 en Watford líður bestu í ensku 4-4-2. Mazzari er ekki enn farinn að tala ensku og er með túlk með sér auk þess sem hann er búinn að nota 21 leikmann í fyristu þremur leikjunum! Watfor munu líklega ekki bæta við sig fyrir lok gluggans og ég spái þeim fallbaráttu eftir frábært síðasta tímabil.
Bournemouth: Hafa ekki farið vel af stað og hafsenastöðurnar eru of veikar hjá þeim. Þeir munu líklega ekki bæta við sig manni fyrir lok gluggans og fallbarátta bíður þeirra.
Stoke: Er djók? Mark Hughes hefur gert frábæra hluti með Stoke undanfarin ár en þeir fara hörmulega af stað núna og sitja á botninum eftri þrjá leiki. Ég ætla samt ekki að örvænta fyrir þeirra hönd og spái því að þeir muni koma sér í sitt miðjumoð.
Takk fyrir mig.
Athugasemdir