Arsenal og Chelsea vilja Isak - Þrír orðaðir við Liverpool - Potter orðaður við Wolves og West Ham
   fös 29. nóvember 2024 14:39
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
„Alveg tilbúin í að klára þetta tímabil í lífinu og prófa eitthvað nýtt"
Icelandair
Munda á landsliðsæfingu í vikunni.
Munda á landsliðsæfingu í vikunni.
Mynd: KSÍ
Náði einungis að spila sjö leiki með Blikum í sumar. Höfuðmeiðsli hafa sett svip sinn á síðustu ár bakvarðarins.
Náði einungis að spila sjö leiki með Blikum í sumar. Höfuðmeiðsli hafa sett svip sinn á síðustu ár bakvarðarins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Munda er uppalin í Völsungi en skipti fyrir tímabilið 2018 í Breiðablik. Hún er samningsbundin félaginu út næsta tímabil.
Munda er uppalin í Völsungi en skipti fyrir tímabilið 2018 í Breiðablik. Hún er samningsbundin félaginu út næsta tímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorsteinn Halldórsson - Steini - þjálfari landsliðsins.
Þorsteinn Halldórsson - Steini - þjálfari landsliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lék sinn fyrsta landsleik sumarið 2019 og hefur alls leikið 16 leiki.
Lék sinn fyrsta landsleik sumarið 2019 og hefur alls leikið 16 leiki.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Munda í leik á EM 2022, hún kom við sögu í tveimur af þremur leikjum Íslands í mótinu.
Munda í leik á EM 2022, hún kom við sögu í tveimur af þremur leikjum Íslands í mótinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Hópurinn er yngri en það er rosaleg samheldni í honum sem er mjög gaman að sjá'
'Hópurinn er yngri en það er rosaleg samheldni í honum sem er mjög gaman að sjá'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sædís vann tvennuna með Vålerenga á nýliðnu tímabili og vinstri bakvörðurinn hefur leikið vel með landsliðinu.
Sædís vann tvennuna með Vålerenga á nýliðnu tímabili og vinstri bakvörðurinn hefur leikið vel með landsliðinu.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
„Það er mjög gaman að vera komin aftur inn í landsliðshópinn, þetta er mikil breyting frá því ég var hérna síðast, en grunnurinn breytist aldrei. Þetta er krefjandi en gaman. Það hefur aðallega orðið breyting á leikmannahópnum frá því fyrir einu og hálfu ári síðan. Hópurinn er yngri en það er rosaleg samheldni í honum sem er mjög gaman að sjá. Steini er alltaf eins, hann breytist aldrei," sagði Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir og brosti þegar hún ræddi við Fótbolta.net.

Hún og íslenska kvennalandslið undirbýr sig núna fyrir leik vináttuleik gegn Kanada í kvöld. Liðið mætir svo Danmörku á mánudag en báðir leikirnir fara fram á Spáni. Munda er að snúa aftur í hópinn eftir eins og hálfs árs fjarveru.

Fer í próf eftir leikinn á mánudaginn
Hún er í háskólanámi í hinum virta Harvard háskóla í Bandaríkjunum, er þar á fótboltastyrk. Hún þurfti að fá leyfi til að fá í þetta verkefni. Eftir leikinn á mánudag fer hún í próf sem stendur fram yfir miðnætti.

„Þetta getur alveg verið krefjandi, ég var að læra áður en ég kom í viðtalið, þarf að taka eitt próf eftir leikinn á móti Danmörku, próf sem stendur fram yfir miðnætti. Ég tek þessu, að vera í landsliðinu er gaman og ég vel það."

„Fyrir þetta staka verkefni var ekkert mál að fá leyfi til að fara. Ég veit að það eru hér dönsk og kanadísk landsliðskona sem eru með mér í skólanum úti og þær hafa farið í fleiri landsliðsverkefni yfir önnina. Það er aðeins meira mál fyrir þær af því að það er mætingarskylda. Flestir sýna þessu mikinn skilning."

„Í þessu tilfelli hringdi Steini bara í mig, vildi taka stöðuna á mér líkamlega og námslega, hvort að þessi gluggi myndi henta mér námslega þar sem það eru flestir í lokaprófum. Ég var alveg tilbúin í að koma í þetta verkefni og finnst ég hafa unnið vel að því."


Erfitt að hafa ekki getað verið hluti af landsliðinu
Munda hefur ekki getað verið með landsliðinu síðustu misseri vegna höfuðmeiðsla. Hvernig hefur verið að fylgjast með liðinu utan frá síðustu misseri?

„Það hefur alveg verið erfitt að geta ekki verið partur af þessu. Stelpurnar hafa staðið sig ótrúlega vel, unnu sig inn á EM, gerðu vel í Þjóðdeildinni og spiluðu vel á móti Bandaríkjunum, þrátt fyrir töp þar þá stóðu þær sig ótrúlega vel. Það var sérstaklega erfitt að vera svona nálægt (í Bandaríkjunum), en samt svona fjarri. Það hefur verið mjög gaman að fylgjast með þeim, er ánægð að vera hluti af hópnum og vonandi næ ég að vinna mig inn í liðið aftur. Það er ekkert sjálfsagt að vera í þessum hópi."

Höfuðmeiðsli hafa sett stórt strik í reikninginn hjá bakverðinum síðustu ár. Hún segir að hausinn sé góður í dag.

„Þetta er samt flókin spurning með svona krónísk höfuðmeiðsli, það er erfitt að svara því hvernig manni líður dags til dags. Mér líður allavega ágætlega núna."

Eina markmiðið var að ná að taka þátt
Á samfélagsmiðlum, og jafnvel í íslenskum miðlum, hafa birst fréttir síðustu viku af góðri spilamennsku landsliðskonunnar með háskólaliði Harvard.

„Ég kom meidd út í tímabilið og eina markmiðið fyrir þetta tímabil var að ná að taka þátt. Ég hef varla átt heilt tímabil úti með liðinu. Mig langaði að upplifa tímabil og það var smá synd að ég hafi ekki náð því öllu. Alls náði ég níu leikjum held ég yfir önnina. Eftir að ég náði mér af meiðslunum gekk mér ágætlega, var ekki mikið í bakverðinum, var meira að spila framar á vellinum og skoraði nokkur mörk. Ætli það hafi ekki verið í síðasta skiptið sem ég er fyrir framan markið," sagði Munda kímin.

Mun ekki óska eftir að fá að spila frammi
„Persónulega fannst mér ég ná að spila ágætlega og er mjög ánægð að hafa náð að spila þessa leiki." Munda spilaði sem fölsk nía, sem tía og á hægri kanti. „Ég held að ég hafi spilað í fimm mínútur í hafsent áður en mér var hent aftur fram."

Eru þetta ekki skilaboð til Steina að henda þér fremst á völlinn?

„Nei nei," sagði Munda og hló, útilokaði þessa hugmynd strax. „Við erum með næga hæfileika frammi í okkar liði."

Gera stundum grín að íslensku stelpunum
Það er íslensk stemning í búningsklefanum í Harvard. Íslensku stelpurnar í hópnum eru fjórar og tala íslensku sín á milli. Ásamt Mundu eru þær Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, Írena Héðinsdóttir Gonzalez og Hildur Hákonardóttir í háskólaliðinu.

„Þær bandarísku gera stundum grín að okkur. Þær kunna nokkur orð eins og „áfram" og „klassi". Við erum kannski alltof lélegar í því að halda öðrum inni í samskiptunum. Við færum okkur oft yfir í íslensku og tölum okkar móðurmál. Maður verður stundum leiður á enskunni."

Tilbúin í næsta kafla
Munda útskrifast frá Harvard í maí, verður þá búin með fjögur ár í Bandaríkjunum. Hún er spennt að klára skólann og að stíga sín næstu skref í lífinu. Stefnan eftir að náminu lýkur er að spila með Breiðabliki þar sem hún er samningsbundin og reyna vinna sér sæti í lansliðinu sem fer á EM næsta sumar.

„Þetta eru búin að vera fjögur ár og hjá mér hefur þetta verið mikið upp og niður með höfuðmeiðsli og annað. Ég er alveg tilbúin í að klára þetta tímabil í lífinu og prófa eitthvað nýtt. Ég mun auðvitað sakna fólksins sem ég hef kynnst. Ætli það sé ekki líka skrítið að segja það, en ég mun örugglega sakna þess að vera alltaf upptekin við námið."

Hvað tekur við eftir að þú útskrifast?

„Ég veit það ekki, ég er að reyna hafa það svolítið opið. Ég tek næstu önn, langar að vinna mig inn í landsliðið og komast á EM. Ég á eitt tímabil eftir með Breiðabliki, síðan sé ég hvað gerist eftir það."

Blendnar tilfinningar með ákvörðunina
Það er sennilega ekki verra upp á vinnu í framtíðinni að vera með gráðu úr Harvard. Skólinn er einn virasti skóli heims. En hvað með ákvörðunin að fara í Harvard, mælir hún með henni?

„Ég mæli með því, en á sama tíma er ég kannski ekki rétta manneskjan til þess að svara þessu. Þetta hefur verið upplifun og ég er búin að læra mikið, búin að bæta mig í ensku og hef lært af þeim bestu í skólastofunni. En fótboltinn hefur verið upp og niður. Þetta fer eftir því hvað hverjum og einum langar að gera. Langar þig að vera skuldbundinn í fjögur ár á einum stað? Eða langar þig að prófa eitthvað fjölbreytnara? Eftir á að hyggja verð ég mjög ánægð að vera komin með gráðu úr Harvard, held að eftir nokkur ár muni ég líta til baka og vera ánægð með ákvörðunina sem ég tók."

Var lokað á mörg tækifæri með þessari ákvörðun?

„Ég þurfti að fórna einhverjum tækifærum. En þetta snýr líka að heilsunni, ég var mikið að vesenast með heilsuna og var ekki viss hvort ég gæti spilað í atvinnumennsku strax. Ég ákvað að prófa og hugaði að ef mér líkaði ekki að vera í skólanum þá gæti ég alltaf hætt, en það er erfitt að hætta þegar maður er byrjaður. Það er spurning hvar ég væri núna ef ég hefði ekki tekið þessa ákvörðun á sínum tíma."

Spurning um heilsuna
Munda var orðuð við franska stórliðið PSG á sínum tíma. Hún segir að draumurinn sé ennþá að spila sem atvinnumaður.

„En eins og ég segi þá veit ég ekkert hvernig heilsufarið verður og hvort að einhver lið vilji eitthvað með mig hafa. Ég tek bara einn dag í einu í þessu."

Stolt af Breiðabliksliðinu
Breiðablik varð Íslandsmeistari í sumar, Munda spilaði sex leiki með liðinu fyrri part sumars áður en hún hélt aftur erlendis.

„Ég er búinn að vera í Breiðabliki síðan 2018 og ég held að ég hafi bara lyft einum bikar sjálf, en liðið hefur unnið mun fleiri. Ég er mjög stolt af liðinu, ótrúlega skemmtilegt lið að vera partur af."

Vonar að sama nálgun skili sér með landsliðssæti
Landsliðskonan er spennt fyrir næsta sumri.

„Ég ætla hugsa næsta sumar eins og ég fór inn í tímabilið núna með Harvard: mig langar bara að spila, vera heil, gera mitt besta og hafa gaman af því. Þá vonandi skilar það sér með sæti í landsliðinu, en það er ekki sjálfsagt og maður þarf að vinna hart að því."

Vill spila en mun ekki draga neinn niður til þess
Hún og Sædís Rún Heiðarsdóttir eru tveir mjög spennandi vinstri bakverðir. Hvernig horfir samkeppnin við Mundu?

„Mér finnst samkeppni æðisleg, Sædís er frábær bakvörður og er búin að standa sig mjög vel síðustu glugga og síðustu ár. Ég er mjög ánægð fyrir hennar hönd og stolt af því hvernig hún hefur stigið upp. Hún kom mjög ung beint inn í byrjunarliðið og hefur staðið sig ótrúlega vel."

„Ég er hér í því hlutverki sem mér er gefið. Ef að það er að vera á bekknum að styðja við Sædísi, þá geri ég það. Maður hefur það alltaf á bakvið eyrað að maður vill auðvitað spila, en ég er ekki að fara draga neinn niður til þess,"
sagði Munda.

Leikur Íslands og Kanada hefst klukkan 18:00 í kvöld og verður í beinni textalýsingu hér á Fótbolti.net og í beinni útsendingu á Núllrásinni og KSÍ TV.
Athugasemdir
banner
banner
banner