Salah draumur Sáda - Man Utd og Chelsea vilja miðvörð Benfica - Gyökeres vill fylgja Amorim
   fös 29. nóvember 2024 22:06
Brynjar Ingi Erluson
England: Botnliðið náði í stig gegn Brighton
Mynd: Getty Images
Brighton 1 - 1 Southampton
1-0 Kaoru Mitoma ('29 )
1-1 Flynn Downes ('59 )

Brighton og Southampton skildu jöfn, 1-1, í 13. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Amex-leikvanginum í kvöld.

Heimamenn komust sanngjarnt í forystu á 29. mínútu er Kaoru Mitoma stangaði fyrirgjöf Tariq Lamptey í netið. Mitoma náði að stinga sér inn fyrir varnarmann Southampton og skalla boltann í vinstra hornið.

Cameron Archer átti að jafna metin fyrir Southampton á 44. mínútu leiksins. Yukinari Sugawara kom með flotta fyrirgjöf á Archer sem setti boltann yfir úr frábæru færi.

Gestirnir frá Southampton náðu inn jöfnunarmarki á 59. mínútu og það upp úr engu. Tyler Dibling hljóp fram völlinn og kom boltanum á Adam Armstrong sem lét vaða, en boltinn í varnarmann og þaðan til Ryan Manning sem lagði hann aftur út á Armstrong en aftur komst vörnin fyrir skotið. Boltinn datt út á Flynn Downes sem var ekki í neinum vandræðum með að hamra boltann í netið úr miðjum teignum.

Nokkrum mínútum síðar komu Southampton-menn boltanum í netið í annað sinn. Ryan Fraser fékk boltann úti vinstra megin, kom honum fyrir á Archer sem var mættur á fjær og skoraði.

VAR tók sér dágóða stund til að skoða markið og komst að þeirri niðurstöðu að Adam Armstrong var rangstæður í aðdragandanum. Fyrirgjöfin fór í gegnum hann áður en Archer skoraði og taldi VAR hann hafa áhrif á leikinn. Markið því dæmt af.

Brighton var nálægt því að taka öll stigin seint í uppbótartíma er Mitoma kom boltanum á Simon Adingra en tilraun hans hafnaði í stöng. Sigurmarkið kom aldrei og lokatölur því 1-1. Brighton er í öðru sæti með 23 stig en Southampton áfram á botninum með 5 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner