Arsenal vill Williams og Merino - Sancho eftirsóttur - Trent vill vera áfram
   fim 30. mars 2023 20:00
Ívan Guðjón Baldursson
Saliba gæti misst af ferðinni til Liverpool
Mynd: Getty Images

Franski miðvörðurinn William Saliba hefur verið mikilvægur hlekkur í hjarta varnarinnar hjá sterku liði Arsenal á leiktíðinni. Hann meiddist þó í leik liðsins gegn Sporting fyrir landsleikjahlé og missir af heimaleik gegn Leeds um helgina.


Sky Sports greinir frá því að Saliba er að glíma við bakmeiðsli og að erfitt sé fyrir læknateymi Arsenal að vita hvenær hann verður klár í slaginn á ný.

Saliba æfði ekki með leikmannahópi Arsenal í dag og telja heimildarmenn Sky að varnarmaðurinn missi af allavega einum leik til viðbótar, á gífurlega erfiðum útivelli Liverpool.

Rob Holding hefur verið að leysa Saliba af hólmi og ætti að vera í byrjunarliðinu gegn Leeds.

Það eru þó ekki aðeins neikvæðar fréttir sem berast úr herbúðum Arsenal vegna þess að Thomas Partey er kominn aftur á fullt með hópnum eftir smávægileg meiðslavandræði. Óljóst er þó hversu mikinn fótbolta miðjumaðurinn mun spila í framtíðinni eftir að þriðja konan steig fram og kærði hann fyrir kynferðisbrot.

Eddie Nketiah æfði einnig einn síns liðs en gæti verið til taks fyrir stórleikinn gegn Liverpool, sem fer fram eftir rúma viku.


Athugasemdir
banner
banner
banner