Man Utd og Dortmund vinna að skiptidíl - Osimhen til Chelsea?
   fim 30. júní 2022 22:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Pælingar úr lestarferðalagi: Er einn leikur virkilega nóg?
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Icelandair
watermark Dagný Brynjarsdóttir og Þorsteinn Halldórsson ræða málin.
Dagný Brynjarsdóttir og Þorsteinn Halldórsson ræða málin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Marki fagnað í gær.
Marki fagnað í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Ísland vann 1-3 sigur á móti Póllandi.
Ísland vann 1-3 sigur á móti Póllandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Áfram Ísland!
Áfram Ísland!
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðið fékk alvöru prófraun í gær þegar þær mættu Póllandi í vinátttulandsleik í smábænum Grodzisk Wielkopolski.

Lestu um leikinn: Pólland 1 -  3 Ísland

Stelpurnar voru lengi að komast í gang og var fyrri hálfleikurinn hreint út sagt bara lélegur. Allavega að mestu leyti. Stelpurnar voru ekki að tengja sérstaklega vel, það virtist vera ryð í flestum leikmönnum og það vantaði kraft.

Í seinni hálfleik mætti allt annað lið til leiks og okkur tókst að landa góðum 1-3 sigri. Það var mjög jákvætt hversu mikinn karakter liðið sýndi að koma til baka og vinna úr vandamálunum.

Ég er búinn að vera í lestarferðalagi í allan dag og fór að pæla í hlutum sem ég sá í leiknum í gær. Þessi leikur vakti upp ákveðnar áhyggjur fyrir undirritaðan því framundan er Evrópumót þar sem íslenska þjóðin vil sjá liðið ná góðum árangri.

Við gerðum í þessum leik mistök sem okkur verður refsað meira fyrir á EM. Markið sem við fengum á okkur var í raun bara hver mistökin á fætur öðru. Og hvað ef við lendum 0-1 undir á móti Belgíu í fyrsta leik? Það er eitthvað sem við höfum mögulega ekkert efni á því að komast að. Stelpurnar þurfa að vera klárar frá fyrstu mínútu og á EM getum við ekki átt 40 mínútna slæman kafla þar sem vantar áræðni, tengingu á milli leikmanna og kraft í leik liðsins.

Bara einn leikur
Ég er enginn þjálfari, en miðað við fyrri hálfleikinn finnst mér liðið allavega þurfa einn leik í viðbót til þess að ná upp meiri leikæfingu og tengingu innan liðsins sem kemur með fleiri leikjum í góðu tempói.

Það var reynt að fá heimaleik fyrir mót en það tókst af einhverri ástæðu ekki. Nákvæmlega af hverju, veit ég ekki en það hefði verið frábært fyrir liðið og þjóðina að taka einn heimaleik og taka svo þennan leik við Pólverja þegar aðeins styttra væri í mót. Þá hefðu leikmenn fengið fleiri mínútur, fleiri leikmenn fengið að spila og liðið hefði líklega náð aðeins betri tengingu.

Fréttablaðið fjallaði um það fyrr í mánuðinum að undirbúningur liðsins hefði verið illa skipulagður - það gekk illa að finna leik og var þessi eini leikur tilkynntur seint.

Sjö af leikmönnum íslenska liðsins eru í vetrardeildum og kláruðu að spila snemma í maí. Sumar hafa þá verið meiddar eða bara lítið verið að spila með félagsliðum sínum.

Hefði ekki til dæmis verið gott að geta gefið Guðnýju Árnadóttur, sem hefur verið að glíma við meiðsli, eins og einn hálfleik fyrir mót?

Það er allt öðruvísi að spila en að æfa og ég get ímyndað mér að það hefði verið gott fyrir þessa tilteknu leikmenn sérstaklega að fá meira en einn leik á þessum tímapunkti þegar stutt er í mikilvægt mót.

Steini segist ánægður
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, hefur talað um að hann sé ánægður með undirbúninginn og liðið hafi ekki endilega verið að sækjast eftir því að spila marga leiki. Hann talaði um að hafa fengið liðið allt saman frekar seint - í kringum 20. júní - og hann telur það best miðað við aðstæður að nota tímann eins og liðið hefur verið að gera.

Steini veit miklu meira um fótbolta en ég og hann veit hvernig á að undirbúa lið til að ná árangri. En það að liðið spili bara einn leik vekur upp spurninguna: Er það virkilega nóg? Spurningunni verður bara svarað þegar í alvöruna er komið.

Framundan eru æfingabúðir í Þýskalandi þar sem liðið verður til 6. júlí áður en haldið verður til Englands á EM. Fyrsti leikur liðsins á mótinu er gegn Belgíu 10. júlí. Það eru því ellefu dagar á milli leikja þarna.

Ísland er í riðli á EM með Belgíu, Frakklandi og Ítalíu. Við eigum klárlega möguleika á að fara áfram ef haldið er rétt á spilunum.

Áfram Ísland!
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner