Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 30. september 2020 22:21
Ívan Guðjón Baldursson
Guardiola: Ferran Torres þarf að bæta ýmsa hluti
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Pep Guardiola var sáttur eftir flottan sigur Manchester City gegn Burnley í deildabikarnum í kvöld.

Guardiola tefldi fram nokkuð sterku liði þar sem Raheem Sterling og Ferran Torres sáu um markaskorunina í 0-3 sigri.

„Ég er mjög ánægður með leikinn þó við séum langt frá okkar besta. Við höfum ekki verið að æfa mikið saman vegna fjölda leikja og svo erum við með tíu leikmenn fjarverandi, sex vegna Covid og fjóra meidda. Það var mikilvægt fyrir sjálfstraustið að halda hreinu," sagði Guardiola.

„Þegar allir eru komnir til baka þá getum við spilað enn betur. Vonandi drögumst við ekki langt afturúr í toppbaráttunni en við erum ánægðir með að vera komnir í 8-liða úrslit bikarsins aftur.

„Þessi sigur var mikilvægur eftir tapið um helgina og til að gefa leikmönnum spiltíma. Við áttum ekki undirbúningstímabil og erum því með marga leikmenn sem þurfa meiri spiltíma til að koma sér í almennilegt leikform."


Ferran Torres gekk í raðir City í sumar og skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið í kvöld. Guardiola er ánægður með leikmanninn en telur hann enn geta bætt sig til muna.

„Ferran þarf að bæta ýmsa hluti hjá sér en það er bara því við höfum ekki haft tíma til að æfa eða tala mikið saman. Hann er ungur og gæðamikill og getur spilað á báðum köntum. Hann er mjög snjall, hann fylgist með öllu sem gerist og er ekki leikmaður sem gefur boltann fyrir bara til að gefa hann fyrir."

City gekk frá kaupum á portúgalska landsliðsmanninum Ruben Dias í gær og býst Guardiola við miklu frá þessum 23 ára gamla miðverði. City er talið hafa greitt 65 milljónir punda fyrir.

„Ég er viss um að Ruben Dias verði magnaður leikmaður fyrir okkur næstu sex eða sjö árin. Við erum mjög ánægðir með að hafa keypt hann, núna erum við komnir með unga og ferska varnarlínu."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner